Á Íslandi gilda nokkuð skýrar reglur um vinnu- og hvíldartíma sem gilda um stærstan hluta bæði almenna og opinbera vinnumarkaðarins.
Reglurnar eiga uppruna sinn í vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, en þær hafa einnig verið innleiddar í kjarasamninga og lög. Ein meginreglan er að á hverjum sólarhring skulu starfsmenn fá samfellda 11 tíma hvíld. Önnur er að óheimilt sé að skipuleggja vinnu lengur en 13 klukkustundir á hverjum sólarhring. Í tilskipuninni er einnig kveðið á um ýmsa aðra þætti sem snúa að vinnutíma og vinnuumhverfi, svo sem hámarksvinnutíma á viku, vikulega hvíld og hlé á vinnutíma á hverjum degi.
Tilgangurinn með reglunum er að skapa öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi fyrir starfsfólk og almennt er litið svo á að þetta séu mikilvægar lágmarksreglur sem eigi ekki að víkja frá nema í þeim tilvikum þar sem undantekningar eru heimilaðar. Um þessar undantekningar og viðbrögð við hvíldartímabrotum er fjallað í kjarasamningum.
Reglurnar gilda fyrir stærstan hluta vinnumarkaðar, bæði þann opinbera og almenna. Almennt má segja að þær gildi aðeins fyrir starfsmenn eða launþega, það er fólk sem er í ráðningarsambandi, vinnur undir stjórn annarra og fær greidd laun fyrir það. Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru því ekki verndaðir af reglunum og einnig eru æðstu stjórnendur og þeir sem ráða sínum vinnutíma sjálfir undanskildir.
Þá falla þingmenn og ráðherrar ekki undir reglurnar, þar sem þeir eru ekki í hefðbundnu ráðningarsambandi, þó þeir fái vissulega greitt fyrir störf sín. Annað gildir um starfsmenn Alþingis og ráðuneyta, sem falla innan gildissviðsins, fyrir utan æðstu stjórnendur.
Einnig má nefna að reglurnar gilda ekki að öllu leyti um vinnu í flugi og í skipum sem og flutningaakstur en í flestum tilvikum gilda þó sérstakar reglur um vinnu í þeim geirum. Þá er heimilt að gera undantekningar vegna sérstakra aðstæðna sem tengjast starfsemi hins opinbera, svo sem í almannavörnum og löggæslu.