Ferðatími starfsfólks telst vera vinnutími

Fróðleikur
Starfsfólk á að vera á launum á meðan ferðalögum sem farin eru vegna vinnu stendur.

Starfsfólk sem þarf að ferðast vegna vinnu sinnar, hvort sem er innanlands eða erlendis, telst vera í vinnunni á meðan ferðalögunum stendur og á að fá greitt samkvæmt því samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins.

Fjölmargt starfsfólk þarf að ferðast í þágu atvinnurekenda, bæði innanlands sem og utanlands. Það hefur verið mismunandi hvernig greitt er fyrir þann tíma sem starfsmenn verja í slík ferðalög og eru ákvæði kjarasamninga jafnvel mismunandi. EFTA-dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að sá tími sem fer í ferðalag starfsmanns í þágu vinnuveitanda, til dæmis vegna ferðar á ráðstefnu erlendis, teljist vera vinnutími hans. Dómurinn þýðir að atvinnurekendum ber að telja þann tíma sem fer í ferðalög vegna vinnu vera vinnutíma, rétt eins og starfsmenn hans séu við störf.

Dómsmálið sem um ræðir snerist um norskan lögreglumann sem sinnti meðal annars störfum í sérstöku viðbragðsteymi lögreglunnar. Verkefni hans voru fjölbreytt og kröfðust sum þeirra þess að hann ferðaðist langar vegalengdir til þess að sinna starfsskyldum sínum.

EFTA dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að sá tími sem fór í ferðalög lögreglumannsins utan venjulegs dagvinnutíma, þar sem hann ferðaðist til og frá fastri starfsstöð sinni í því skyni að inna af hendi starfsskyldur sínar í þágu vinnuveitanda, ætti að telja sem virkan vinnutíma.

Af dóminum leiðir að þurfi starfsmaður að ferðast í þágu vinnuveitanda síns innanlands eða erlendis þannig að samanlagður ferðatími og vinnutími þann daginn fer umfram umsamið vinnuframlag starfsmannsins þá á starfsmaður rétt á greiðslu fyrir yfirvinnu.

Að öllum líkindum ætti þessi dómur ekki við um þau tilfelli þar sem starfsmaður fer í valkvæða náms- eða kynnisferð á vegum vinnuveitanda. Dómurinn tekur til ferðatíma vegna ferðalags starfsmanns sem er nauðsynlegt svo hann geti sinnt starfsskyldum sínum. Náms- eða kynnisferð sem starfsmaður ákveður sjálfur að fara í eru eflaust ekki taldar vera þess eðlis að dómurinn eigi við um þær.

Nánari upplýsingar má finna í minnisblaði sem tekið var saman á skrifstofu BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?