Bann við mismunun vegna aldurs

Fróðleikur
Óheimilt er að tengja fjölda orlofsdaga við lífaldur.

Bann við mismunun á grundvelli aldurs á vinnumarkaði tekur gildi 1. júlí 2019. Bannið gildir meðal annars um ráðningar, aðgengi að starfsmenntun, ákvarðanir í tengslum við laun og önnur starfskjör og uppsagnir. Þar með er óheimilt að hafa aldursákvæði í launatöxtum kjarasamninga og álykta má að óheimilt sé að tengja orlofsrétt við aldur starfsmanna.

Bannið byggir á lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði sem tóku gildi í september 2018 sem aftur byggir á Evróputilskipun sem bannar mismunun á vinnumarkaði vegna ýmissa atriða.

Þó að mismunun á grundvelli aldurs sé bönnuð geta þó verið almennar undantekningar frá lögunum. Þá eru tvær undantekningar tilteknar sérstaklega. Sérstaklega er tekið fram að lögin gildi ekki um mismunandi aldursskilyrði í tengslum við lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum. Þá er einnig tekið fram að mismunandi meðferð vegna aldurs sé ekki brot á lögunum ef hún er réttlætt með vísan til stefnu í atvinnumálum og meðalhófs er gætt.

Þó ekki hafi reynt á lögin fyrir dómstólum á Íslandi enn er hægt að líta til dóma Evrópudómstólsins við túlkun þeirra og svara þannig ýmsum spurningum sem hafa vaknað. Ein þeirra er tenging orlofsréttar við lífaldur, sem þekkist í flestum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB. Það hefur verið staðfest að bein tenging launataxta í kjarasamningi við aldur er óheimil. Því má álykta að það sama gildi um beina tengingu orlofsréttar við aldur og væri því æskilegt að breyta þeim ákvæðum kjarasamnings fyrir 1. júlí næstkomandi.

Öllu flóknara er að svara álitaefninu um skyldubundinn starfslokaaldur, en það hefur verið talið heimilt í einstökum tilvikum á grundvelli undantekningarinnar um stefnu í atvinnumálum. Til eru dómar frá Spáni og Þýskalandi þar sem var talið í lagi að kveða á um skyldubundin starfslok í kjarasamningi við 65 ára aldur. Þar skipti máli að viðkomandi starfsmenn áttu rétt á lífeyrisgreiðslum eftir starfslok. Rökin eru þá þau að aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um ákveðna stefnu um skipulag á vinnumarkaði, að fólk fari á lífeyri á ákveðnum tíma og þannig opnist störf fyrir ungt fólk. Hér skiptir meðalhófið máli, að ekki sé gengið lengra en eðlilegt og sanngjarnt er til að ná fram settu markmiði.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?