Greinum áhrif ákvarðana stjórnvalda á kynin

Fróðleikur
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra bera ábyrgð á því að gerð sé áætlun um kynjaða fjárlagagerð.

Ákvarðanir stjórnvalda geta haft ólík áhrif á fólk eftir kyni. Kynjuð fjárlagagerð greinir þessi áhrif svo hægt sé að taka ákvarðanir byggt á þeim.

Kynjuð fjárlagagerð hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi í nokkur ár. En hvað er kynjuð fjárlagagerð? Í stuttu máli má segja að ákvarðanir varðandi útgjöld og tekjuöflun ríkisins geta haft mismunandi áhrif á kynin vegna ólíkrar stöðu þeirra. Einstakar ákvarðanir, til dæmis varðandi skattlagningu, gjaldtöku og í hvaða málaflokka fé er sett, geta ýmist stuðlað að jafnrétti, viðhaldið núverandi stöðu eða aukið á misrétti.

Kynjuð fjárlagagerð gengur út á að greina þessi áhrif og taka ákvarðanir um ríkisfjármál út frá þeim upplýsingum. Stjórnvöld hafa unnið nokkuð markvisst að kynjaðri fjárlagagerð síðan 2009, en með lögum um opinber fjármál, sem tóku gildi 1. janúar 2016, er búið að koma ferlinu í fastar skorður og áherslan hefur færst frá því að snúa fyrst og fremst að greiningu stöðunnar í tilteknar aðgerðir.

Samkvæmt lögunum bera fjármálaráðherra og forsætisráðherra ábyrgð á því að gerð sé áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem svo er höfð til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Fjárlagafrumvarpið er einnig jafnréttismetið. Samhliða er einnig gefin út grunnskýrsla kynjaðrar fjárlagagerðar ljósi er varpað á stöðu kynjanna á öllum málaflokkum. Þessi tvö skjöl, fimm ára áætlunin og grunnskýrslan, eiga að vera endurskoðuð árlega. Þau voru bæði gefin út í fyrsta sinn í mars 2019 og þar kemur ýmislegt fram. Niðurstöður greininga í grunnskýrslunni sýna fram á verulegan kynjamun á mörgum sviðum samfélagsrekstursins.

Skýrslan er nokkuð löng, en þar er fjölmargt sem er áhugavert fyrir félaga í aðildarfélögum BSRB. Þar á meðal er fjallað um ríkið sem launagreiðanda, en greiningar á upplýsingum úr launakerfi ríkisins hafa sýnt fram á mikinn mun á launum einstakra hópa sem ekki er að fullu hægt að skýra á málefnalegan hátt. Þá er einnig fjallað um kynjasjónarmið í skattkerfinu. Sem dæmi má nefna að undanþágur frá virðisaukaskatti nýtast of frekar körlum en konum. Hvað tekjuskatt varðar hefur ríkisstjórnin þegar tekið ákvörðun um að breyta samnýtingu skattþrepa, en í greiningum kom í ljós að 93% ívilnunar vegna þess fór til karla. Fleiri dæmi mætti nefna, svo sem byggðasjónarmið og menntakerfið.

Þó vissulega halli oftar á konur en karla í þeim greiningum sem hafa verið gerðar gengur kynjuð fjárlagagerð út á að mæta konum og körlum, stúlkum og drengjum á þeirra forsendum, leitast við að brjóta upp hefðbundnar kynjamyndir og taka mið af fjölbreytileika samfélagsins. Þá er sérstaklega fjallað um það að mikilvægt sé að dýpka greiningar og horfa til margþættrar mismununar, með því að skoða þætti eins og fötlun, kynvitund og aldur.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?