Greitt fyrir útkall þó starfsmaður mæti ekki á vinnustað

Fróðleikur
Með nútímatækni þurfa starfsmenn oft ekki að koma á vinnustaðinn til að sinna útkalli eftir vinnutíma.

Tæknibreytingar síðustu ára og áratuga hafa nú þegar haft margvísleg áhrif á vinnu fólks. Öll erum við með farsíma í lófanum eða vasanum flestum stundum og margir eru með aðgang að tölvupósti og öðrum kerfum sem tengjast vinnu viðkomandi í gegnum símann. Þannig hafa skilin milli vinnu og einkalífs í mörgum tilvikum máðst út. Áður skildi fólk vinnuna eftir í vinnunni en fyrir marga er sá veruleiki breyttur.

Flest ákvæði kjarasamnings eru komin til ára sinna og mörg skrifuð áður en símar og tölvur komu til sögunnar. BSRB hefur haft það á stefnuskrá sinni að bæta við ákvæðum um skil milli vinnu og einkalífs. Kjaraviðræður standa nú yfir og málið er til umræðu.

Eðlilega breytist túlkun ákvæða með tíðarandanum og tæknibreytingum. Í kjarasamningi eru til dæmis ákvæði um útköll sem voru ef til vill hugsuð með ákveðnum hætti þegar þau voru skrifuð en eru í dag túlkuð með öðrum hætti. Útkallsákvæðin gera ráð fyrir því að þegar starfsmaður er kallaður til vinnu sem er ekki í beinu framhaldi af daglegri vinnu hans skuli greiddar að minnsta kosti 3 klukkustundir í yfirvinnu.

Áður var það þannig að yfirmaður hringdi eða sendi jafnvel skilaboð í símboða starfsmanns sem kom síðan á vinnustað til að sinna útkallinu. Þessi veruleiki er breyttur og mörg verkefni er hægt að leysa í gegnum tölvu eða jafnvel snjallsíma. Því má segja að túlkun útkallsákvæðanna hafi breyst og þau nái í dag einnig til þeirrar vinnu sem er unnin fjarri vinnustað, utan reglulegs vinnutíma.

Margir starfsmenn eru auðvitað í þeirri stöðu að í starfslýsingu þeirra eða ráðningarsamningi er gert ráð fyrir því að þeir sinni erindum utan vinnutíma upp að einhverju marki, en það gildir alls ekki um alla félagsmenn aðildarfélaga BSRB.

BSRB mun halda til streitu kröfu um skýrt ákvæði um skil milli vinnu og einkalífs, en þangað til verður útkallsákvæðinu beitt í þeim tilvikum sem vinnuframlags er krafist af starfsmönnum utan reglulegs vinnutíma.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?