Fjárhagslegir hvatar tengdir atvinnuleysi ofmetnir

Fróðleikur
BSRB hefur kallað eftir því að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og að þær fylgi launahækkunum kjarasamninga.

Of mikið hefur verið gert úr því að fólk sem missir vinnuna þurfi fjárhagslega hvata til að snúa aftur á vinnumarkaðinn þegar nýtt starf býðst. Aðrir hvatar spila einnig hlutverk, sem þarf að hafa í huga þegar rætt er um hvort hækka þurfi atvinnuleysisbæturnar.

Atvinnuleysi hefur aukist mikið undanfarið vegna afleiðinga heimsfaraldurs kórónaveiru. Enn er mikil óvissa um framhaldið, en flestir spá því að atvinnuleysi muni aukast eitthvað áfram inn í haustið og veturinn. BSRB hefur kallað eftir því að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og að þær fylgi launahækkunum kjarasamninga.

Síðustu vikur hefur verið töluverð umræða um fjárhæð bótanna og lengd tímabils tekjutengingar. Þeim sjónarmiðum hefur verið haldið á lofti að fólk þurfi fjárhagslega hvata til þess að halda út á vinnumarkaðinn að nýju, og þess vegna megi bætur ekki vera of háar og að ekki eigi að hækka þær núna. Þetta sjónarmið kemur úr klassískum hagfræðikenningum, um að fólk stjórnist nær eingöngu af fjárhagslegum hvötum, við séum öll homo economicus, hinn hagsýni maður.

Eflaust er það rétt upp að einhverju marki, en síðustu ár og áratugi hafa rutt sér til rúms nýjar rannsóknir og kenningar á mannlegu eðli, á mörkum hagfræði og sálfræði, sem benda til þess að veruleikinn sé mun flóknari. Fólk stjórnist ekki bara af fjárhagslegum hvötum heldur af alls kyns innri hvötum, sem jafnvel hafa meiri áhrif en þeir fjárhagslegu. Til dæmis finnst fólki skipta máli að vera samfélaginu og öðru fólki til gagns, að sýna heiðarleika og réttsýni. Þá viljum við flest starfa við hluti sem við höfum áhuga á og veita okkur gleði. Þetta endurspeglast einnig í áhugamálum fólks. Af hverju ætli fólk klífi til dæmis á fjöll eða hlaupi maraþon, eða sinni sjálfboðastarfi? Þar eru engir fjárhagslegir hvatar að verki.

Refsingar virka letjandi

Þessar kenningar, sem hafa verið rannsakaðar á ýmsan hátt, benda til þess að fjárhagslegir hvatar séu oft ofmetnir, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Þannig hafa nýlegar rannsóknir einnig leitt í ljós að refsingar, svo sem að skerða bætur strax og fólk fær einhverjar tilfallandi tekjur, geti virkað letjandi á fólk. Það virðist einnig skipta máli að sýna fólki traust, og veita því tækifæri og svigrúm til þess að byggja upp líf sitt að nýju ef það lendir í áfalli eins og atvinnumissi. Fjárhagsáhyggjur hafa einnig mikil áhrif á andlega getu fólks og ef fólk á von á því að lenda í fátækt fljótlega eftir atvinnumissi er líklegt að lítið rými sé fyrir nýjar hugmyndir, svo sem að leita endurmenntunar eða skipta um starfsvettvang á annan hátt.

Þessum kenningum hefur verið beitt að einhverju leyti í stefnumótun á Íslandi. Eftir hrun var átak gert í því að opna menntakerfið fyrir atvinnuleitendum, og nú er unnið að svipuðu fyrirkomulagi. Það byggir á því að virkni sé góð, fyrir einstaklinga og samfélagið, og fólki farnist betur ef það hefur eitthvað fyrir stafni í stað þess að vera í atvinnuleysi í lengri tíma. Þó virðist skorta upp á að hugað sé að fjárhagslegu öryggi atvinnuleitenda á meðan þeir ganga í gegnum tímabil breytinga og enduruppbyggingar, í þeim efnum virðast áratugagamlar hagfræðikenningar enn ráða ríkjum. Það er mikilvægt að byggja stefnumótun alltaf á bestu mögulegri þekkingu, og enn mikilvægra nú þegar samfélagið glímir við afleiðingar heimsfaraldurs.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?