Afturvirkar hækkanir geta haft áhrif á fæðingarorlof

Fróðleikur
Félagsmenn þurfa sjálfir að hafa samband við Fæðingarorlofssjóð telji þeir sig eiga rétt á hærri greiðslum vegna afturvirkra launahækkana.

Þar sem dráttur varð á gerð kjarasamninga aðildarfélaga BSRB komu kjarasamningsbundnar hækkanir ekki til greiðslu fyrr en eftir undirritun þeirra. Slíkar greiðslur geta haft áhrif á greiðslur úr ýmsum félagslegum kerfum, til að mynda greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Félagsmenn þurfa sjálfir að hafa samband við sjóðinn og fara fram á endurútreikning.

Flestir kjarasamningar aðildarfélaga BSRB runnu út þann 31. mars 2019. Kjarasamningar við ríkið og sveitarfélög voru gerðir í mars 2020 og voru samningar því lausir í næstum heilt ár. Á þeim tíma komu engar kjarasamningsbundnar launahækkanir til félagsmanna innan BSRB, fyrir utan eingreiðslu sumarið 2019. Þessi eingreiðsla var vegna tímabilsins 1. apríl til 31. júlí 2019.

Eftir undirritun kjarasamninga voru uppsafnaðar launahækkanir greiddar út, ýmist 1. apríl eða 1. maí 2020. Þeir starfsmenn sem voru starfandi á þessum tíma ættu því að hafa fengið hluta sinna launahækkana greiddar afturvirkt nýlega. Í einhverjum tilfellum geta slíkar afturvirkar greiðslur haft áhrif á réttindi starfsmanna. Það getur til dæmis átt við um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, enda miðast þær greiðslur við tekjur starfsmanna á ákveðnu tímabili.

Sem dæmi mætti hugsa sér starfsmann sem á von á barni þann 1. júlí 2020. Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof eru greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrir launafólk reiknaðar þannig að tímabilið sem notað er til viðmiðunar er tólf mánaða tímabil sem hefst sex mánuðum fyrir fæðingardag barnsins. Tímabilið í tilfelli umrædds starfsmanns er því allt almanaksárið 2019. Fæðingarorlofssjóður reiknar mánaðarlegar greiðslur úr sjóðnum miðað við þær tekjur.

Þar er hins vegar ekki endilega litið til þess að kjarasamningar voru lausir á þessu tímabili og með réttu, hefðu kjarasamningar verið undirritaðir strax, hefði viðkomandi átt að vera með hærri laun til viðmiðunar. Í kjarasamningum BSRB er sú fjárhæð 17.000 krónur á mánuði. Eingreiðslan sem var greidd þann 1. ágúst 2019 leiðréttir upphæðina að vissu leyti en eftir standa þónokkrir mánuðir þar sem starfsmaður naut ekki sinna réttu launa miðað við efni kjarasamnings.

Starfsmaðurinn þarf því að hafa samband við Fæðingarorlofssjóð og óska eftir því að laun hans séu endurreiknuð miðað við þau laun sem afturvirkar launahækkanir tryggðu honum í afturvirkum kjarasamningum. Þetta getur átt við um þá sem eignast barn til og með 30. september næstkomandi, enda nær viðmiðunartímabil vegna tekna þeirra þá yfir tímabil þegar kjarasamningar voru lausir.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?