COVID-19 og efnahagslífið

Fróðleikur
COVID-19 faraldurinn mun hafa mikil áhrif á efnahagslífið.

COVID-19 faraldurinn mun hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag og búast má við að kostnaður ríkissjóðs verði gríðarhár. Verkalýðshreyfingin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja afkomu og velferð launafólks í kreppunni sem faraldurinn hefur í för með sér.

Þann 23. janúar 2020 ákváðu kínversk stjórnvöld að loka borginni Wuhan í Hubeihéraði í Kína því fjöldi smitaðra af COVID-19 vírusnum var orðinn svo mikill. Heimsbyggðina rak í rogastans enda fáheyrt að 11 milljóna borg sé hreinlega sett í einangrun.

Tæpum tveimur mánuðum síðar erum við orðin vön slíkum fréttum enda var sett á útgöngubann á norður Ítalíu í byrjun mars 2020 og um miðjan mars bættust Spánn og Frakkland í hópinn. Í Bandaríkjunum er búið að loka á allar ferðir frá Schengen svæðinu sem nær til Evrópska efnahagssvæðisins og verið er að loka á öll ferðalög íbúa utan Schengen inn á svæðið. Miklu víðar er verið að grípa til svipaðra aðgerða. Á Íslandi ríkir samkomubann og takmarkanir á ferðlög fólks frá hættusvæðum með kröfum um sóttkví.

Strax í janúar fór áhrifa vírussins að gæta í kínversku efnahagslífi enda er Wuhan mikilvæg framleiðsluborg. En auðvitað gætti áhrifanna mun víðar því í hnattvæddu framleiðslukerfi heimsins getur ein vara verið framleidd úr hlutum frá fjölda framleiðenda hingað og þangað um heiminn. Samhliða útbreiðslu vírussins hefur hægt á framleiðslu í hverju landinu á fætur öðru en eftirspurn hefur líka dregist verulega saman. Við eyðum miklu minna af peningum þegar við getum ekki ferðast, getum varla sótt viðburði og skemmtanir og veigrum okkur við að versla nema brýna nauðsyn beri til. Stjórnvöld geta brugðist við svona áföllum með tvennum hætti, með peningastefnu seðlabanka og auknum útgjöldum ríkissjóðs.

Vaxtalækkun hefur lítil áhrif

Seðlabankar, meðal annarra sá íslenski, hafa reynt að bregðast við með vaxtalækkunum en það hefur haft lítil áhrif. Þegar seðlabankar lækka vexti er tilgangurinn að örva fjárfestingavilja fyrirtækja því það verður ódýrara að lána peninga og að auka eyðsluvilja almennings með lántöku. Þetta getur virkað ágætlega þegar hægir á efnahagslífinu af hefðbundnum ástæðum en þegar heimsfaraldur geisar eru fá fyrirtæki í fjárfestingarhugleiðingum og settar eru hömlur á getu almennings til að eyða peningum. Óvissan sem svo óvenjulegar aðstæður valda gerir fólk líka varkárara í fjármálum. Vaxtalækkunum er líka ætlað að örva fyrirtæki í gegnum hlutabréfamarkaði því það verður fýsilegra að fjárfesta í hlutabréfum fyrirtækja sem nýta lægri vexti til arðbærra fjárfestinga. Það er augljóslega ekki raunin nú og því hríðfalla hlutabréfamarkaðir þrátt fyrir vaxtalækkanir seðlabanka víða um heim.

Ríkisstjórnin víða um heim eru að leggja til ríkisfé til að reyna að bjarga fyrirtækjum í alvarlegum vanda og til að tryggja afkomu fólks sem missir vinnu eða er frá vinnu vegna útgöngubanns, veikinda eða veru í sóttkví. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim beinast mikið að fyrirtækjum því það er nauðsynlegt að halda þeim gangandi tímabundið svo fólk haldi vinnu og að framleiðsla vöru og þjónustu geti hafist að nýju þegar faraldurinn líður hjá. Það dregur úr lengd og dýpt efnahagskreppunnar. Hér á Íslandi hafa fyrirtæki fengið frest til að greiða helming af sköttum og gjöldum næsta mánuðinn, verið er að tryggja fólki framfærslu í sóttkví og hlutaatvinnuleysisbætur. Boðaðar hafa verið enn frekari aðgerðir til að bjarga fyrirtækjum frá gjaldþroti og heimilum frá alvarlegum fjárhagsvanda.

Ríkissjóður rekinn með halla

Ástandið er alvarlegt og enn er óljóst hversu lengi það mun vara. Hitt er ljóst að ríkissjóður mun verða rekinn með miklum halla á þessu ári eða vel á annað hundrað milljarða. Til að setja þetta í samhengi gera fjárlög ársins ráð fyrir að útgjöld nemi um þúsund milljörðum en vegna áhrifa vírussins munu þau sem sagt aukast umtalsvert. Það mun taka mikið á að vinna á slíkum halla í kjölfarið. Þá má einnig gera ráð fyrir að áfallið hafi áhrif á verðlag. Ef gengi íslensku krónunnar fellur mikið gæti það leitt til aukinnar verðbólgu en aðrir óttast verðhjöðnun vegna gríðarlegs samdráttar í eftirspurn. Hvað sem verður þá mun verkalýðshreyfingin gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja afkomu og velferð launafólks.

Við bendum á nýjustu upplýsingar um faraldurinn á vef Landlæknisembættisins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?