Starfsmenn í sóttkví eiga rétt á launum

Fróðleikur
Ekki á að mæta á heilsugæslu eða bráðamóttöku sé grunur um smit heldur hringja í símanúmerið 1700.

Starfsmenn sem þurfa að vera í sóttkví vegna COVID-19 faraldursins fá laun frá opinberum launagreiðendum, hvort sem þeir reynast vera með sjúkdóminn eða ekki. BSRB hvetur alla til að kynna sér einkenni veirunnar og gera allt sem hægt er til að draga úr líkum á smiti.

Útbreiðsla COVID-19 hefur verið hröð á heimsvísu og hafa heilbrigðisyfirvöld beint þeim fyrirmælum til fólks sem hefur mögulega komist í snertingu við veiruna eða smitaða einstaklinga að vera í sóttkví í 14 daga. Þetta er gert til þess að hindra frekari útbreiðslu hér á landi. Margar spurningar hafa vaknað þegar kemur að réttindum þessara einstaklinga til launa á þeim tíma sem sóttkví varir. Af þeim sökum hafa opinberir vinnuveitendur gefið út leiðbeiningar vegna fjarveru starfsmanna.

Þeir starfsmenn sem eru sendir í sóttkví samkvæmt fyrirmælum frá heilbrigðisyfirvöldum eða vinnuveitanda sínum skulu fá greidd meðaltalslaun samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og skal fjarvist ekki talin til veikinda. Þannig er starfsmaður ekki að ráðstafa veikindarétti sínum vegna tímabilsins.

Þeir starfsmenn sem fara í sóttkví af eigin ákvörðun eru launalausir eða þurfa að taka orlofsdaga á tímabilinu.

Þeir starfsmenn sem eru með grun um COVID-19 smit eða hafa fengið smit staðfest af heilbrigðisyfirvöldum fá greidd laun í veikindum.

BSRB hvetur alla til þess að kynna sér vel einkenni veirunnar og hvernig draga megi úr sýkingarhættu. Það er mikilvægt að gæta vel að persónulegu hreinæti. Handþvottur og hreinlæti í kringum augu, nef og munn er mikilvægt og fólk er hvatt til þess að forðast að heilsa með handabandi á meðan hættustig varir yfir.

Sé grunur um smit skal hafa samband við símanúmerið 1700 og eru einstaklingar beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að hafa fengið ráðleggingar um slíkt í síma.

Hér má finna upplýsingar um COVID-19 á vef Landlæknisembættisins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?