Fjárfesting í umönnun þjóðráð í niðursveiflu

Fróðleikur
Fjárfesting í umönnunargeiranum skilar sér í fleiri störfum en fjárfesting í vegagerð og byggingarframkvæmdum.

Ávinningurinn af því að stjórnvöld bregðist við niðursveiflu með fjárfestingu í greinum opinberrar þjónustu í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu gæti verið meiri en af fjárfestingu í vegagerð og byggingariðnaði samkvæmt nýrri rannsókn.

Þegar dregur saman í efnahag þjóða og atvinnuleysi eykst verður samdráttur í tekjum ríkissjóðs og halli eykst. Oft er brugðist við með niðurskurði í opinberri þjónustu og greiðslum frá ríkinu eins og almannatryggingum og barnabótum. Sú leið veldur oftast enn frekari samdrætti í eftirspurn og atvinnuleysi. Önnur og mun betri leið til að bregðast við er að auka opinberar fjárfestingar.

Samkvæmt hagfræðikenningum eru opinberar framkvæmdir, svo sem vegagerð, byggingar og fleiri framkvæmdir góð leið til þess að auka atvinnuþátttöku og örva efnahagslífið. Framkvæmdir skapa störf en einnig skapast afleidd störf í ýmsum greinum sem tengjast þeirri sem fjárfest er í. Nýleg rannsókn sem gerð var í sjö aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sýnir hins vegar að fjárfestingar í umönnun og velferð, svo sem öldrunarþjónustu, heilbrigðiskerfi og leikskólum, eru ekki síður árangursríkar og jafnvel vænlegri til árangurs.

Aukin framlög til til þess konar þjónustu leiða til hærra atvinnustigs og auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja í hagkerfinu sem aftur eykur tekjur ríkissjóðs. Fjárfestingarnar hafa líka langtímaáhrif því betri heilsa og velsæld leiða til aukinnar framleiðni launafólks.

Rannsóknin sýndi fram á meiri ávinning af því að fjárfesta í greinum opinberrar þjónustu í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu frekar en opinberum framkvæmdum. Í fyrsta lagi voru fleiri störf sköpuð. Það er vegna þess að nánast allur kostnaður sem fer í umönnun er launakostnaður öfugt við framkvæmdir þar sem mikið fé fer einnig í hönnun og hráefni.

Jákvæð kynjaáhrif af fjárfestingu í umönnun

Einnig voru jákvæð kynjaáhrif af því að fjárfesta í umönnun. Í flestum löndum eru fleiri karlar en konur á vinnumarkaði og víða er vinnumarkaður afar kynskiptur, karlar eru í miklum meirihluta í byggingariðnaði og konur í menntakerfi og umönnun, svo dæmi séu nefnd. Ef störf eru sköpuð í umönnun minnkar munur á atvinnuþátttöku karla og kvenna. Karlmenn eru einnig líklegri til þess að taka að sér störf í umönnun en konur í byggingariðnaði.

Með því að fjárfesta í umönnun og velferð skapast einnig fleiri afleidd störf. Það er meðal annars vegna þess að einstaklingar sem sinna ólaunuðum umönnunarstörfum geta í meira mæli hafið eða aukið atvinnuþátttöku þegar ríki og sveitarfélög tryggja umönnun barna, aldraðra og fatlaðs fólks. Fleiri fara því að vinna fyrir tekjum og greiða skatta, eftirspurn eykst og jöfnuður og kynjajafnrétti aukast.

Að sjálfsögðu útilokar eitt ekki annað, og æskilegast er að stjórnvöld hafi jafnvægi milli atvinnugreina þegar kemur að fjárfestingu. Fjárfesting í velferðarkerfinu skilar sér margfalt til baka og á erfiðum tímum ætti alls ekki að skera niður þar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?