Starfsfólk Reykjavíkurborgar og ríkis sem sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2019 og starfsfólk sveitarfélaga sem átti gjaldfallið orlof 1. apríl 2020 getur tekið það út í orlofsdögum til 30. apríl 2023. Eftir það fyrnast orlofsdagarnir.
Við gerð síðustu kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði var öllu starfsfólki tryggður 30 daga orlofsréttur, óháð aldri viðkomandi eða starfsaldri. Orlofsrétturinn reiknast þó alltaf hlutfallslega út frá starfshlutfalli og starfstíma á síðasta orlofsári, sem er tímabilið frá 1. maí til 30. apríl á hverju ári.
Samkvæmt lögum er óheimilt að flytja orlof milli ára. Samkvæmt kjarasamningum við ríkið og Reykjavíkurborg er þó heimilt að flytja orlof til næsta árs ef fyrir liggur skrifleg beiðni yfirmanns um að starfsmaður taki ekki orlof sitt á tilsettum tíma. Einnig getur starfsfólk sem var veikt eða í fæðingar- og foreldraorlofi á sumarorlofstímabilinu geymt sitt orlof til næsta árs, óháð því hvort þau starfi hjá ríkinu, Reykjavíkurborg eða öðrum sveitarfélögum.
Þrátt fyrir að almenna reglan sé að óheimilt sé að flytja orlof milli ára var í kjarasamningum undantekning sem heimilaði starfsfólki að fresta orlofstöku til næsta árs með samþykki yfirmanns. Þessi undantekning var felld út í síðustu kjarasamningum í þeim tilgangi að stuðla að því að fólk taki sitt sumarorlof og fái þannig frí frá störfum árlega.
Samhliða þessari breytingu var réttur þeirra sem þá áttu gjaldfallið orlof tryggður með sérstöku ákvæði um að slíkir orlofsdagar, allt að 60 talsins, fyrnist ekki fyrr en 30. apríl 2023. Hjá Reykjavíkurborg og ríkinu var upphafsdagsetningin 1. maí 2019 en hjá sveitarfélögunum var hún 1. apríl 2020.
Starfsfólk sem átti gjaldfallið orlof á þessum dagsetningum hefur þar af leiðandi haft þrjú eða fjögur ár til þess að taka þá daga út en hafi þeir ekki gert það 30. apríl nk. falla þeir niður.
Það hefur borið á því að starfsfólk hafi farið í orlof en ekki áttað sig á því að þar var verið að taka af frítökurétti þeirra en ekki orlofsrétti, en meginreglan er sú að ganga skuli á elsta orlof áður en gengið er á frítökurétt. Það getur því verið skynsamlegt að athuga orlofsstöðu sína og ganga úr skugga um að ekkert ónotað orlof sé til staðar frá því fyrir fyrrnefndar dagsetningar og ef svo er að taka það út áður en það fyrnist.