Þarf að standa rétt að útreikningi lausnarlauna

Fróðleikur
Óumdeilt er að starfsmaður skuli halda fullum réttindum út það tímabil sem lausnarlaun ná til.

Samkvæmt kjarasamningum BSRB hafa sveitarfélög heimild til þess að bjóða starfsmanni lausnarlaun við tilteknar aðstæður. Algengast er að slíkt sé gert þegar starfsmaður hefur verið frá vinnu jafn lengi og sem nemur tvöföldum veikindarétti hans. Þegar greidd eru lausnarlaun skal greiða laun í þrjá mánuði, og þar með lýkur ráðningarsambandinu. Nýlega þurfti BSRB að berjast fyrir réttum greiðslum til handa félagsmanns, en til stóð að greiða honum lægri fjárhæð en hann átti rétt til samkvæmt kjarasamningi.

Málið varðar einstakling sem vegna langvarandi veikinda og óvinnufærni var gert að þiggja lausnarlaun af hálfu vinnuveitanda. Öllum reglum kjarasamnings var fylgt hvað varðar rétt vinnuveitanda til þess að bjóða lausnarlaun, en þegar kom að greiðslum lausnarlauna kom upp álitamál. Vinnuveitandi, sem var sveitarfélag, taldi sér heimilt að framkvæma launauppgjör áður en tímabil lausnarlauna kom til. Þannig var gert upp uppsafnað orlof og hlutfallslegar persónuuppbætur til þess tíma en eftir þann tíma voru einungis greidd föst mánaðarlaun. Á hinu þriggja mánaða tímabili lausnarlauna var ávinnsla persónuuppbóta og orlofslauna því ekki fyrir hendi. Sveitarfélagið vísaði til túlkunar kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga og var ekki tilbúið til þess að endurskoða afstöðu sína.

Í kjölfarið sendi BSRB erindi til kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem túlkun Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélagsins var mótmælt harðlega. Í erindinu var vísað til kjarasamninga og laga, en að mati BSRB og Réttindanefndar bandalagsins var óumdeilt að á tímabili lausnarlauna skuli starfsmenn halda óbreyttum launakjörum og því ekki hægt að framkvæma launauppgjör fyrr en að þeim tíma liðnum. Eftir nánari skoðun á málinu féllst Samband íslenskra sveitarfélaga á túlkun BSRB og dró til baka fyrri túlkun sína.

Niðurstaða málsins var því sú að fallist var á rök BSRB og þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að ljúka uppgjöri við starfsmanninn með réttum hætti.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?