Rafrænt nám fangavarða fyrirmynd fyrir aðra

Fangaverðir gátu unnið að náminu á tíma sem hentaði þeim.

Tilraunaverkefni Starfsmenntar í að setja upp rafrænt nám fyrir fangaverði í samvinnu við Fangelsismálastofnun hefur gengið vel og er ljóst að aðrar opinberar stofnanir geta lært af því og stuðlað að frekari símenntun sinna starfsmanna. Þetta kemur fram í umfjöllun um verkefnið á vef Starfsmenntar.

Í kjölfar bókunar í kjarasamningi SFR, nú Sameykis, og ríkisins frá 2015 var Starfsmennt fengið það verkefni að setja upp nám fyrir fangaverði. Með því var brugðist við uppsöfnuðum vanda þar sem hópi starfsmanna Fangelsismálastofnunar hafði ekki gefist færi á að ljúka námi frá Fangavarðarskólanum. Námið er skilyrði fyrir því að hljóta skipun í embætti fangavarðar.

Allt bóklegt nám var flutt í rafrænt námsumhverfi en boðið var upp á verklega kennslu í staðnámi. Þannig var komið til móts við starfsmenn sem áttu erfitt með að stunda nám í Fangavarðaskólanum. Það hafði reynst erfitt meðal annars vegna þess að kennt var á dagvinnutíma og starfsstöðvar fangavarða eru víðsvegar á landinu. Samið var um að 20 nemendur fengju aðgang að nýja náminu veturinn 2018 til 2019 með útskrift í maí síðastliðnum í huga.

„Starfsmennt tók að sér að greina fræðsluþarfir starfsmanna og gerði tillögu að áherslum í grunnnámi og símenntun fangavarða. Ljóst var að ekki yrði hægt að kenna allt í fjarnámi og skipuleggja þyrfti nokkrar stuttar staðlotur sem m.a. yrðu nýttar til að kenna ýmsa líkamlega færni, til dæmis sjálfsvörn og öryggistök. Valin voru sex meginþemu sem voru sett upp sem rafræn námskeið; skýrslugerð og öryggismál, afbrota- og sakfræði, lög og reglur, fangelsisfræði, sálfræði og tölvukerfi,“ segir í umfjöllun um málið á vef Starfsmenntar.

Verkefnið fór vel af stað og um miðbik námstímans reyndist mikil ánægja með það bæði hjá kennurum og nemendum. Með því að bjóða upp á upptökur af fyrirlestrum og rafræn námsgögn gátu nemendur stjórnað yfirferðinni sjálfir og unnið í námsefninu í dauðum tíma á vinnutíma, til dæmis næturvöktum, eða í frítíma sem hentaði þeim. Þá þurftu nemendur ekki að fara til höfuðborgarinnar til að sinna náminu sem sparaði mikinn tíma í ferðalög.

Mjög jákvæðar vísbendingar

Framundan er vinna við að ljúka mati á verkefninu, huga að því hvernig betrumbæta má vinnulagið og laga þannig nám fangavarða að nýjum tímum.

„Það má segja að tilraunaverkefnið hafi gefið vísbendingar um mjög jákvæða niðurstöðu fyrir starfsnám í rafrænu námsumhverfi. Ljóst er að aðrar opinberar stofnanir geta tekið Fangelsismálastofnun sér til fyrirmyndar og stuðlað að frekari símenntun sinna starfsmanna í gegnum rafræna miðla,“ segir í grein á vef Starfsmenntar.

Þar segir að gott gengi þessa verkefnis megi þakka góðri undirbúningsvinnu, enda þurfi undirbúningur fyrir rafrænt nám að henta fyrir námsefnið, nemendurna, kennarana og það kerfi sem notað er til að halda utan um námið. Sé vel að undirbúningi staðið ætti námið að geta skilað stofnunum sömu gæðum á náminu en á mun styttri tíma og með mun minni kostnaði en hefðbundið staðnám.

„Rúsínan í pylsuendanum er svo að með því að efla rafrænt nám starfsmanna er jafnframt verið að auka stafræna færni þeirra og þannig efla þá í að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar, hverrar áhrifa er farið að gæta nú þegar og munu aukast þegar fram líður,“ segir á vef Starfsmenntar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?