Kjaraviðræður BSRB og aðildarfélaga bandalagsins við viðsemjendur, ríki og sveitarfélög, hafa verið í gangi frá því í mars. Hægt gengur að semja en þó er einhver hreyfing á viðræðunum að mati formanns BSRB. Samningar allra 23 aðildarfélaga bandalagsins eru lausir.
„Við höfum verið að ræðast við og það hefur verið einhver hreyfing á viðræðunum en að okkar mati hafa þær gengið allt of hægt,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Samninganefndir bandalagsins hefur átt fjölda funda með samninganefnd ríkisins auk funda með samninganefndum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Lang flest aðildarfélög bandalagsins semja við þessa aðila.
„Meginþunginn í kjaraviðræðunum til þessa hefur verið í umræðum um vinnutíma,“ segir Sonja. Bandalagið og aðildarfélög þess hafa lagt mikla áherslu á styttingu vinnuvikunnar í aðdraganda kjarasamninga. BSRB hefur tekið þátt í tilraunaverkefnum með Reykjavíkurborg annars vegar og ríkinu hins vegar sem hafa sýnt fram á að styttri vinnuvika leiðir til aukinnar ánægju í starfi og aukinna afkasta. Þá mun heilsa og vellíðan starfsmanna batna með styttri vinnudegi og jafnrétti kynjanna aukast.
Aðildarfélög bandalagsins hafa veitt BSRB umboð til að semja um ákveðna málaflokka, til dæmis vinnutíma og launaþróun milli markaða. Félögin semja sjálf um launakjör og ýmis sérmál. Samningar flestra aðildarfélaga BSRB losnuðu í lok mars, en öll 23 aðildarfélög bandalagsins eru með lausa kjarasamninga.
Póstmenn nærri samningi
Póstmannafélag Íslands hefur verið með lausa samninga frá áramótum, en félagið semur við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Íslandspósts. Jón Ingi Cæsarsson, formaður félagsins, segir að nú virðist loks kominn góður gangur í viðræðurnar og vonandi sé ekki langt í að samningar takist.
Enn sem komið er hefur aðeins eitt aðildarfélag BSRB vísað kjaradeilu sinni við viðsemjendur til ríkissáttasemjara. Félag íslenskra flugumferðarstjóra vísaði kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Isavia til ríkissáttasemjara í apríl. Önnur félög eiga í viðræðum við viðsemjendur án aðkomu ríkissáttasemjara enn sem komið er.