Hugmyndir um launaskerðingar og skerðingu á starfshlutfalli opinberra starfsmanna nú þegar reynir á almannaþjónustuna sem aldrei fyrr í heimsfaraldri kórónaveirunnar eru óábyrgar og munu leiða af sér mun stærri vandamál en markmiðið er að reyna að leysa.
Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands um frumvarp til fjáraukalaga segir að það séu „mikil vonbrigði“ að ekki sé rætt um að skerða starfshlutföll eða launakjör opinberra starfsmanna, annarra en þeirra sem eru í fremstu víglínu vegna heimsfaraldursins, nú þegar stórfelld lækkun starfshlutfalls og uppsagnir séu að hefjast á almenna vinnumarkaðinum.
„Að krefjast þess að opinberir starfsmenn sæti launaskerðingum kemur eins og köld gusa í andlit fólks sem leggur nótt við nýtan dag að bjarga mannslífum og gera líf samborgara sinna bærilegra, tryggja heilsu almennings og halda uppi nauðsynlegri þjónustu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Meirihluti þjóðarinnar hefur lagt áherslu á að samstaðan sé mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn vánni sem fylgir COVID-19, bæði heilsufarslega og efnahagslega. Aðrir kjósa sér greinilega aðra leið.“
Skilningsleysi Viðskiptaráðs á opinberum rekstri bendir til þess að viðskiptalífið á Íslandi skilji ekki að það er einmitt grunnþjónustan sem geri þeim kleift að starfa. Hvernig ætla íslensk fyrirtæki að starfa og dafna án öflugs heilbrigðis- og menntakerfis? Hvernig á starfsfólk fyrirtækjanna að geta sinnt störfum sínum ef ekki eru til staðar leikskólar, grunnskólar hjúkrunarheimili, þjónusta við fólk með fötlun og langvarandi veikindi? Hver á að hirða sorpið sem skapast í rekstrinum og daglegu lífi starfsfólksins, hver á að þrífa og tryggja hreinlæti? Hvernig ætla að fyrirtækin að starfa í samfélagi án öflugrar löggæslu? Hvernig ætla fyrirtækin að koma vörum sínum og þjónustu á markað án trausts vegakerfis og fjarskiptainnviða? Hvernig ætla fyrirtæki landsins að starfa í innlendu og alþjóðlegu umhverfi án íslensks stjórnkerfis sem stendur vörð um leikreglur og þjónustu við almenning og fyrirtæki?
Ótímabær og óskiljanleg krafa
Í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjáraukalögin er lagt til að semja ætti við starfsmenn ýmissa stofnanna um lækkað starfshlutfall og hagræða í ríkisrekstri. Krafa um hagræðingu í ríkisrekstri nú þegar reynir á almannaþjónustuna er algjörlega ótímabær og óskiljanleg. Að hvetja stjórnvöld til þess að lækka starfshlutfall starfsmanna til þess eins að greiða atvinnuleysisbætur á móti annað dæmi um órökrétta og gagnslausa ráðstöfun.
BSRB hefur stutt aðgerðir stjórnvalda sem lúta að því að bjarga þeim fyrirtækjum frá gjaldþroti sem eru rekstrarhæf en verða fyrir alvarlegum áföllum af völdum veirunnar. Það er hins vegar umhugsunarefni þegar stöndug fyrirtæki sem greitt hafa eigendum milljarða í arðgreiðslur á undanförnum árum fara strax í að lækka starfshlutfall eða segja upp fólki í tímabundinni niðursveiflu frekar en að standa með sínu starfsfólki.
Næstu vikur ráða úrslitum
Hafa verður í huga að það var skorið niður á öllum sviðum opinberrar þjónustu í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og niðurskurðurinn hélt áfram í uppsveiflunni í kjölfarið. Afleiðingarnar eru þær að víðast hvar í opinberri þjónustu er enn þann dag í dag byggt á lágmarks mönnun og víða er skortur á fólki. Eitt skýrasta dæmið um áhrifin er verulegur skortur á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum til starfa. Fólk sem hefur menntað sig sérstaklega til þessara starfa flýr þessar starfsstéttir vegna lélegra starfsaðstæðna og kjara. Manneklan veldur síðan enn meira álagi á starfsfólkið sem eftir er sem þarf að hlaupa hraðar, sem skilar sér í aukinni veikindafjarveru og kulnun í starfi.
„Næstu vikur ráða úrslitum um það hvernig við sem samfélag ætlum að koma út úr þokunni sem við stöndum frammi fyrir í dag. Slíku óvissuástandi fylgir að sjálfsögðu spenna en það er mikilvægt að við nýtum krafta okkar til samvinnu í stað átaka og samtals í stað rifrilda. Niðurskurður í almannaþjónustu leiðir til stærri vandamála en markmiðið er að hann leysi og því ættum við öll að sameinast um að verja velferðina,“ segir Sonja.