Nauðsynlegt er að ganga lengra í stuðningi við heimilin en gert er í frumvarpi stjórnvalda um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveiru, að mati BSRB.
Í umsögn bandalagsins, sem send hefur verið Alþingi, er því fagnað að grípa eigi til aðgerða til að styðja við fyrirtæki sem voru með gott rekstarhæfi áður en efnahagsáhrifa faraldursins hafi farið að gæta enda muni það tryggja minna atvinnuleysi launafólks og auðvelda atvinnulífinu að rétta úr kútnum eftir að váin sé liðin hjá.
„BSRB treystir því að von sé á fleiri aðgerðum til að tryggja afkomu heimila landsins. Staðan í samfélaginu breytist dag frá degi og ný álitaefni koma sífellt upp og munu halda áfram að koma upp. Til þess að tryggja öryggi samfélagsins, og sérstaklega viðkvæmra hópa, er mikilvægt að afkoma launafólks sé tryggð, svo fólk veigri sér ekki við að fylgja tilmælum yfirvalda,“ segir meðal annars í umsögn BSRB. Henni var fylgt eftir af fulltrúum bandalagsins á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær.
„Heimsfaraldurinn sem nú geisar hefur leitt enn betur í ljós mikilvægi þess að fjármagna með fullnægjandi hætti til dæmis heilbrigðisþjónustu, menntakerfið, félagsþjónustu, löggæslu, slökkvilið, sjúkraflutninga, sorphirðu, almenningssamgöngur og opinbera stjórnsýslu. Þá hafa válynd veður á yfirstandandi vetri leitt í ljós hversu alvarlegar afleiðingar það hefur að vanrækja nauðsynlega innviðauppbyggingu. Tímabundinn hallarekstur ríkissjóðs er óumflýjanlegur en þann halla má ekki greiða niður á kostnað ofangreindra þátta heldur verða tekjustofnar ríkisins til lengri tíma að fjármagna hann,“ segir í umsögn BSRB.
Stuðningur við barnafjölskyldur ómarkviss
Áformaður stuðningur til barnafjölskyldna er að mati BSRB ómarkviss. Ráðgert er að einstaklingar og pör með allt að 926 þúsund krónur í mánaðarlaun fái sama 40 þúsund króna barnabótaukann og foreldrar með tekjur yfir því fái 20 þúsund króna barnabótaauka. Þetta telur BSRB ómarkvisst og leggur til að þeir fjármunir sem ætlaðir eru í úrræðið verði nýttir þannig að fólk á atvinnuleysisskrá sem er með börn á framfæri og tekjulægri fjölskyldur fái hlutfallslega mest.
Bandalagið kallar einnig eftir úrræði fyrir foreldra barna sem þurfa að vera frá vinnu vegna skerðinga á þjónustu skóla. Í umsögninni er lagt til að atvinnurekendur greiði foreldrum sem þetta á við um full laun en eigi á móti rétt á endurgreiðslu til Vinnumálastofnunar með sama hætti og vegna launagreiðslna til fólks í sóttkví.
Á móti undanþágum frá virðisaukaskatti
BSRB mótmælir áformuðum undanþágum frá virðisaukaskatti vegna vinnu við endurbætur á íbúðahúsnæði, sem hækka á úr 60 prósent í 100 prósent. Bent er á í umsögninni að úrræðið nýtist helst þeim tekjuhæstu, dragi ekki úr skattsvikum sem neinu nemur og dragi verulega úr tekjum ríkissjóðs. Nær væri að halda endurgreiðslum óbreyttum og nýta það svigrúm sem það skapar til að auka umfang fjárfestingaráætlunar stjórnvalda.
Bandalagið mótmælir einnig hugmyndum um að endurgreiða eigendum og leigjendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt af heimilisaðstoð eða reglulegri umhirðu húsnæðisins. BSRB telur fráleitt að niðurgreiða með þessum hætti heimilisþrif og aðra þjónustu fyrir efnameira fólk. Betra væri að nýta þá fjármuni sem ætlaðir hafi verið í þetta inn í fjárfestingaráætlun stjórnvalda til að skapa störf. Sama eigi við um endurgreiðslu virðisaukaskatts til félagasamtaka, réttara sé að setja fjármunina beint inn í fjárfestingaráætlunina.
Atvinnuleysisbætur hækki
Í umsögn um aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónaveiru leggur BSRB einnig áherslu á að atvinnuleysisbætur hækki. Bandalagið leggur til að bæturnar fylgi launahækkunum kjarasamninga, sem hefði kallað á 17 þúsund króna hækkun um áramót og 24 þúsund krónur frá 1. apríl næstkomandi.
„Atvinnuleysi hefur aukist mikið á síðustu misserum og var 5 prósent áður en áhrifa heimsfaraldursins fór að gæta í íslensku efnahagslífi og á eftir að aukast verulega. Hækkun atvinnuleysisbóta er nauðsynleg til að tryggja afkomu þeirra sem missa atvinnuna,“ segir meðal annars í umsögninni.