Mette Nord frá Fagforbundet í Noregi var í gær kjörin forseti Evrópskra heildarsamtaka opinberra starfsmanna, EPSU, á 10. þingi samtakanna sem stendur yfir þessa dagana í Dublin á Írlandi.
Á þinginu er víða komið við. Aðgerðaáætlun samtakanna er nú til umræðunni og Britta Lejon formaður ST í Svíþjóð og formaður NEA nefndar EPSU (Standing committe on National and European Administration) kynnti í gær þann hluta framkvæmdaáætlunar EPSU sem snýr að baráttunni fyrir samningsréttinum og ályktun um hækkun launa og verndun samningsréttarins.
Britta sagði meðal annars frá því að EPSU hefur undanfarin ár meðal annars unnið með stéttarfélögum fangavarða því víða eru starfsaðstæður þeirra algjörlega óviðunandi vegna yfirfullra fangelsa og fjárskorts. Samningsrétturinn er brotinn og rétturinn til verkfalla eða aðgerða ekki til staðar.
Fulltrúar fjölmargra þjóða lögðu til málanna um réttindi starfsmanna og þar kom m.a. fram að í Portúgal hafa laun opinberra starfsmanna staðið í stað í meira eða minna í tíu ár, engin þróun hefur orðið í réttindamálum, einkavæðing hefur aukist og eftirlaunasjóðir eru í hættu.
Víða hafa stjórnvöld notað efnahagskreppuna 2009 til að lækka laun opinberra starfsmanna og skerða réttindi þeirra. Þetta á til dæmis við í Bretlandi og nú tíu árum síðar hafa starfsmenn ekki fengið leiðréttingar eða hækkanir. Þetta þýðir víða um 20 prósent skerðingar.
Aðstaða opinberra starfsmanna í dag er þó líklega hvað verst Í Tyrklandi en þar hafa opinberir starfsmenn átt í hatrammri baráttu við stjórnvöld. Réttindi eru brotin, starfsmenn eru reknir án ástæðu og án uppsagnarfrestar samkvæmt nýjum lögum og fulltrúar stéttarfélaga handteknir og þeim misþyrmt. Verkföll eru bönnuð og opinber þjónusta er einkavædd og það sama á við eftirlaunasjóði launafólks. Lýðræðið er undir hæl einræðis og baráttan framundan löng og ströng.
Fulltrúar Tyrkja á þinginu binda miklar vonir við stuðning evrópskra og alþjóðlegrar stéttarfélagsbaráttu í baráttunni fyrir endurreisn lýðræðisins í Tyrklandi. Fulltrúar EPSU hafa meðal annars heimsótt stéttarfélög í Tyrklandi til að sýna stuðning og samtökin styðja baráttu tyrkneskra stéttarfélaga með margvíslegum öðrum hætti.