Foreldrar sem bíða eftir leikskólaplássi eða plássi hjá dagforeldrum hafa undanfarið deilt reynslusögum í fjölmennum umræðuhópi á Facebook. Ljóst er að margir eru í vanda með að brúa umönnunarbilið, eins og BSRB hefur ítrekað bent á.
Flestir foreldrar þekkja þennan vanda vel. Fæðingarorlofið er samanlagt níu mánuðir en börn eru oft átján mánaða eða eldri þegar þau komast inn á leikskóla. Þá þurfa foreldrar að treysta á dagforeldra og ekki alltaf á vísan að róa þar. Margir dagforeldrar eru með langa biðlista og í fjölmörgum sveitarfélögum er engum dagforeldrum til að dreifa.
BSRB gerði úttekt á stöðunni í sveitarfélögum landsins á síðasta ári. Þar kom skýrt fram að mikill munur er á dagvistunarúrræðum sem foreldrar njóta milli sveitarfélaga og að ekki ríkir jafnræði í þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi, eins og lesa má um í skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði sem kom út í maí í fyrra.
Samkvæmt úttektinni eru börn að meðaltali 20 mánaða þegar þau fá pláss á leikskólum. Almennt nýta foreldrar sér þjónustu dagforeldra til að brúa bilið frá fæðingarorlofi til leikskóla, þar sem það er í boði. Áætla má að börn komst í einhverja dagvistun, leikskóla eða til dagforeldra á bilinu 12 til 15 mánaða.
Engir dagforeldrar í 53 sveitarfélögum af 74
Þar sem þjónusta dagforeldra er í höndum einkaaðila ber sveitarfélögum hvorki skylda til að tryggja framboð dagforeldra né að niðurgreiða þjónustu þeirra. Í úttekt BSRB kom fram að engir dagforeldrar eru starfandi í 53 af 74 sveitarfélögum í landinu. Um 88 prósent íbúa landsins búa þó í sveitarfélögum þar sem einhverjir dagforeldrar eru starfandi.
Fjallað er um stöðuna hjá foreldrum að loknu fæðingarorlofi í frétt MBL. Þar kemur fram að kallað sé eftir úrbótum frá sveitarfélögunum í landinu.
- Guðbjörg Þrastardóttir
Núverandi fyrirkomulag tryggir að litlu eða engu leiti að báðir foreldar fái jafna möguleika til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi. Þegar börnin komast ekki að hjá dagforeldri eða á leikskóla hafa foreldrar engin önnur úrræði en að annað foreldrið sé heima til að sinna barninu. Mun oftar eru það mæðurnar sem taka það hlutverk að sér þó dæmi séu um annað.
- Sævar Þór Halldórsson
Það þarf ekki að vera flókið mál að breyta þessu. Fyrsta skrefið er að lengja fæðingarorlofið. Starfshópur sem skilaði ráðherra félagsmála niðurstöðu snemma árs 2016 lagði til að orlofið yrði lengt í 12 mánuði. Undir það hefur BSRB tekið. Þá lagði starfshópurinn til að stofnuð yrði verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga sem vinna ætti að þarfagreiningu og aðgerðaáætlun um leiðir til að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla við tólf mánaða aldur frá 1. janúar 2021.
BSRB hefur tekið undir þessi sjónarmið, sem fulltrúi bandalagsins í starfshópnum beitti sér fyrir. Það er skýr krafa bandalagsins að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði og að því loknu eigi foreldrar rétt á dagvistun hjá sínu sveitarfélagi.