Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, undirritaði í morgun viljayfirlýsingu um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Vinnueftirlit ríkissins kallar eftir því að fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og fleiri undirriti yfirlýsinguna.
Í yfirlýsingunni, sem forsætisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra ásamt forsvarsmanna annarra aðila vinnumarkaðarins undirrituðu í morgun, er sagt skýrum stöfum að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum verði ekki liðið. Komi slík hegðun upp skuli bregðast við því með markvissum hætti.
„Markmið fyrsta tístsins sem leiddi til #Metoo byltingar um allan heim var að ljá þolendum kynferðisofbeldis og áreitni rödd og varpa ljósi á umfangi vandans. Þökk sé þeim fjölda kvenna sem hafa sýnt það hugrekki að stíga fram hafa þessi skilaboð sannarlega málað skýra mynd og haft veruleg áhrif á okkur öll,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í erindi sínu á fundinum í morgun.
„Ég trúi því að tilkoma #metoo byltingarinnar leiði til verulegra breytinga. Ég trúi því að við verðum upplýstari, meðvitaðri og leggjum okkar af mörkum til að innleiða raunverulegar breytingar. Því verður fylgt fast á eftir af hálfu BSRB. Saman munum við tryggja að í framtíðinni þurfi enginn að segja lengur #metoo,“ sagði Elín Björg. Hægt er að lesa ræðu hennar hér.
Meinsemd sem á ekki heima í nútímasamfélagi
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði á fundinum í morgun að mikil þátttaka á fundinum undirstriki mikilvægi þessa máls. „Það er kominn tími til þess að við öll, og ég segi við öll því það er enginn einn sem getur breytt þessu, útrýmum áreitni á íslenskum vinnumarkaði, meinsemd sem á ekki heima í nútímasamfélagi.“
Ásmundur Einar sagði að bregðast verði við af festu og með aðgerðum. Hann sagði frá því að til standi að skipa nefnd með aðilum vinnumarkaðarins sem ætlað er að meta umfang kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og áreitis auk ofbeldis og eineltis á vinnumarkaði. Þá verður skipaður aðgerðarhópur með fulltrúum stjórnvalda og aðilum vinnumarkaðarins þar sem hægt er að bregðast við hratt.
Sáttmáli á vinnustöðum
Yfirlýsingin sem undirrituð var í morgun er birt á vef Vinnueftirlits ríkisins. Þar segir:
Íslensk lög og reglur kveða á um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum skuli ekki liðið. Komi það upp skal bregðast við því með markvissum hætti.
Öryggiskennd og góður starfsandi skipta sköpum fyrir vellíðan starfsmanna. Á vinnustaðnum eigum við góð samskipti og virðum eftirfarandi sáttmála:
- Við þekkjum stefnu og viðbragðsáætlun vinnustaðarins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og erum meðvituð um skyldur okkar.
- Við líðum ekki einelti, áreitni eða ofbeldi, beitum því ekki og vitum að meðvirkni með geranda getur skaðað starfsmenn og vinnustað okkar.
- Við berum sameiginlega ábyrgð á vinnuumhverfinu og leggjum okkar af mörkum til að bæta það enn frekar.
- Við erum ólík, með mismunandi bakgrunn og lífsskoðanir, en sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum.
- Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.
- Við ræðum um framkomu sem okkur mislíkar og tökum upp varnir fyrir þá sem brotið er gegn.
- Við tökum tillit til ábendinga um að við getum bætt framkomu okkar.
- Við sýnum öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.
Hægt að undirrita rafrænt
Talsverður fjöldi forsvarsmanna fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka og annarra undirritaði yfirlýsinguna á vel sóttum fundi sem Vinnueftirlit ríkisins og Velferðarráðuneytið stóðu fyrir á Grand Hótel Reykjavík í morgun.
Þeir sem ekki voru viðstaddir fundinn en vilja undirrita yfirlýsinguna fyrir hönd síns vinnustaðar geta gert það með rafrænum hætti í gegnum vef Vinnueftirlits ríkisins.