Bjarg íbúðafélag byggir 75 íbúðir á Akureyri

Skrifað var undir viljayfirlýsingu um samstarf Akureyrarbæjar og Bjargs íbúðafélags á Akureyri í gær. Á myndinni eru (frá vinstri) Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Bjarg íbúðafélag ætlar að byggja 75 íbúðir á Akureyri á næstu árum og hefur þegar fengið vilyrði fyrir lóð fyrir að minnsta kosti 18 íbúðir við Guðmannshaga í Hagahverfi. Skrifað var undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu íbúðanna á Akureyri í gær.

Akureyrarbær verður þar með fyrsta bæjarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins til að úthluta lóðum til Bjargs og leggja félaginu til 12 prósenta stofnframlag. Lóðum fyrir íbúðirnar 75 verður úthlutað á næstu þremur árum.

Samkomulagið undirrituðu Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrarbæjar, Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Gylfi Arnbjörnsson, stjórnarformaður Bjargs og forseti ASÍ, og Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs.

Við uppbyggingu verður horft til atriða eins og félagslegrar blöndunar, yfirbragðs, íbúalýðræðis og hönnunar og verður það útfært nánar í samvinnu aðila, að því er fram kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar. Þar segir jafnframt að bærinn gerir það að skilyrði fyrir veitingu stofnframlags til verkefnisins að fjölskyldusvið Akureyrarbæjar hafi að jafnaði ráðstöfunarrétt að 20% íbúða, samkvæmt sérstöku samkomulagi sem aðilar gera um hvert verkefni.

Góð viðbót fyrir Akureyringa

„Við fögnum því auðvitað sérstaklega að fyrsta sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins hafi nú samið við Bjarg um byggingu íbúða og vonum að fleiri sveitarfélög á landsbyggðinni bætist í hópinn síðar,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB og stjórnarmaður hjá Bjargi íbúðafélagi.

„Það verður góð viðbót við húsnæðismarkaðinn á Akureyri og mun tryggja tekjulægri hópum öruggt leiguhúsnæði til langs tíma á viðráðanlegu verði,“ segir Elín Björg.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir að þetta framtak íbúðafélagsins Bjargs á Akureyri sé góð viðbót við húsnæðismarkaðinn í bænum og að Akureyrarbær komi beint að þessu góða máli í því skyni að bæta aðgengi tekjulægri hópa að öruggu leiguhúsnæði.

„Framundan er krefjandi verkefni sem Bjarg mun leysa af metnaði og í samvinnu við heimamenn," segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, sem fagnar samstarfinu við Akureyrarbæ.

Leiguheimili að danskri fyrirmynd

Merki Bjargs íbúðafélagsBjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð haustið 2016 af BSRB og ASÍ. Félagið er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félagsmönnum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd. Leiðarljós félagsins er að byggja vel hannað, hagkvæmt og endingargott húsnæðihúsnæði. Miðað er við að greiðslubyrði leigu fari ekki yfir 25% af heildartekjum leigjenda, að teknu tilliti til húsnæðisbóta.

Reykjavíkurborg hefur þegar ákveðið að úthluta lóðum fyrir alls 1.000 íbúðir og Hafnarfjörður mun úthluta lóðum fyrir 150 íbúðir til viðbótar. Þá á félagið í viðræðum við önnur sveitarfélög. Frekari upplýsingar um Bjarg íbúðafélag má finna á vef félagsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?