Önnur hver kona orðið fyrir áreiti í starfi

Stjórnendur á vinnustöðum þurfa að tryggja að starfsmenn viti að rétt verði tekið á málum vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldis.

Nær helmingur kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup sem greint var frá í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær.

Alls segjast um 45 prósent kvenna og 15 prósent karla hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Hlutfallið er hæst hjá yngstu aldurshópunum, en um 55 prósent kvenna á aldrinum 18 til 24 ára hafa orðið fyrir áreitni og 23 prósent karla í sama aldurshópi.

Þegar spurt var hvort viðkomandi hafi orðið fyrir áreitni á síðustu tólf mánuðum svöruðu um átta prósent kvenna og þrjú prósent karla játandi.

BSRB og önnur heildarsamtök á vinnumarkaði sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fordæmt er hverskonar kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þar eru þolendur hvattir til að leiga réttar síns, til dæmis með því að leita til síns stéttarfélags. Þá er vakin athygli á þeim skyldum sem lagðar eru á herðar stjórnenda á vinnustöðum til að koma í veg fyrir slíka hegðun og bregðast rétt við komi hún upp.

„Það er nýbúið að setja reglugerð um með hvaða hætti launagreiðendur bera ábyrgð á vellíðan síns starfsfólks og við viljum auðvitað að því sé fylgt eftir,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gærkvöldi.

„Það er ekki nóg að setja reglugerð og þess vegna krefjast þess að verði gerðar einhvers konar verklagsreglur, það þarf auðvitað líka að fylgja því eftir,“ sagði Elín Björg. „Það þarf líka að taka samtalið á vinnustöðum um það með hvað eru tilhlýðileg samskipti og hvað ekki.“

Kallað eftir eftirliti

BSRB kallar eftir því að stjórnvöld tryggi að stjórnendur á vinnustöðum fylgi nýlegri reglugerð sem skýrir hvaða kröfur eru gerðar til þeirra til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Það má til dæmis gera með því að styrkja Vinnueftirlitið og tryggja að það geti sinnt eftirliti með því að þessi mál séu í lagi á vinnustöðum.

Þá þarf að taka til endurskoðunar lagaumhverfið til að styrkja stöðu þolenda og breyta ríkjandi menningu sem veldur því að þeir sem verða fyrir slíkri hegðun leita ekki aðstoðar eða úrlausn sinna mála.

Stjórnendur axli ábyrgð

Ekki er síður mikilvægt að stjórnendur á vinnustöðum axli sína ábyrgð með sóma, ræði opinskátt við sína starfsmenn um þau mörk sem þurfa að vera á vinnustöðum svo þeir séu í raun öruggt umhverfi fyrir alla. Skilaboðin eru þeim mun skýrari til starfsfólksins ef æðsti stjórnandi tekur þetta erfiða umræðuefni upp og sýnir að þessi mál verða tekin alvarlega á vinnustaðnum.

Verkalýðsfélög geta og eiga að taka þátt í því að útrýma kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Að því hefur verið unnið á undanförnum árum en gera verður enn betur í framtíðinni svo hægt sé að útrýma því með öllu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?