Vinnustaðir geta sótt um að stytta vinnutíma

Starfsstöðvar borgarinnar geta sótt um að taka þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar.

Borgarráð hefur samþykkt að framlengja tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og BSRB um styttingu vinnuvikunnar og gefa öllum stofnunum borgarinnar tækifæri til að sækja um að taka þátt. Hægt verður að stytta vinnutíma um allt að þrjár klukkustundir án launaskerðingar.

Tilraunaverkefnið hófst árið 2015 og hefur tekist vel til. Stytting vinnutíma án launaskerðingar hefur haft jákvæð áhrif á starfsfólk án þess að koma niður á afköstum, eins og fram kemur í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Fram til þessa hefur þátttaka í verkefninu einskorðast við ákveðna vinnustaði en með ákvörðun borgarráðs frá því í síðustu viku er verkefnið víkkað út. Starfsstöðum hjá borginni mun nú gefast kostur á að sækja um þátttöku í þessu tilraunaverkefni. Leggja þarf fram rökstuðning fyrir því að viðkomandi starfsstöð geti tekið þátt og útfærslu á styttingu vinnutíma starfsmanna niður í allt að 37 klukkustunda vinnuviku. Þessi nýi áfangi tilraunaverkefnisins mun hefjast 11. febrúar á næsta ári og standa út ágúst 2019.

„Ég er afskaplega glaður með þá forystu sem Reykjavíkurborg hefur tekið í þessum efnum. Þetta mun vonandi hafa mikil áhrif og stuðla að fjölskylduvænni vinnumarkaði með styttri heildarvinnutíma þegar horft er einhver ár fram í tímann,“ segir Magnús Már Guðmundsson, formaður stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar.

Minna álag og aukin starfsánægja

Um 300 starfsmenn á átta starfsstöðum borgarinnar hafa tekið þátt í tilraunaverkefninu hingað til. Niðurstöður úr rannsóknum sem gerðar hafa verið samhliða verkefninu benda til þess að stytting vinnuvikunnar haf jákvæð áhrif á starfsmenn. Á þeim starfsstöðum þar sem vinnutími var styttur hefur dregið úr líkamlegum og andlegum einkennum álags í samanburði við vinnustaði þar sem vinnutíminn var óbreyttur. Þá hefur starfsánægja aukist á öllum starfsstöðum fyrir utan einn.

Að mati stýrihópsins eru niðurstöðurnar afar jákvæðar og mikilvægt að halda áfram að þróa tilraunaverkefnið. Kanna þurfi með markvissum hætti hvort styttri vinnuvika geti haft jákvæð áhrif á mönnun starfsstaða sem glíma við manneklu í dag. Tekið hefur verið upp samstarf við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um utanumhald rannsókna tengdu verkefninu.

Hér má lesa nánari umfjöllun um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?