Atvinnurekendum ber lagaleg skylda til að til að tryggja öryggi starfsmanna í vinnu og hvíla ríkar skyldur á þeim til að bæði fyrirbyggja kynferðislega áreitni og ofbeldi, og að bregðast rétt við þegar atvik eða grunur um atvik koma upp. Starfsmenn geta leitað til síns stéttarfélags til að ræða þessi mál, bæði almennt og varðandi forvarnir, og einnig ef tilvik koma upp og þeir þurfa aðstoð og ráðgjöf.
Mikil umræða hefur verið um kynferðislega og kynbundna áreitni of ofbeldi á vinnustöðum undanfarið. Fjöldi kvenna um allan heim steig fram í nafni #metoo byltingarinnar haustið 2017 og mánuðina á eftir og lýsti reynslu sinni af slíkum málum. Ýmsar rannsóknir hafa einnig staðfest að kynbundin og kynferðisleg áreitni þrífst á vinnustöðum á Íslandi.
Öll eigum við rétt á því að starfsumhverfi okkar einkennis af gagnkvæmri virðingu í samskiptum og að við njótum verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Afleiðingar áreitni og ofbeldis fyrir einstaklinga sem verða fyrir slíku geta verið margvíslegar, t.d. getur líkamlegri og andlegri heilsu hrakað og einstaklingar geta orðið fyrir tekjutapi. Áhrifanna gætir einnig á vinnustöðum, vinnustaðamenning verður slæm og líðan starfsmanna sömuleiðis, sem getur leitt til aukinnar starfsmannaveltu, fleiri veikindadaga og þar með aukins kostnaðar.
Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Dæmi um kynbundna og kynferðislega áreitni eru t.d. þrýstingur um kynferðislega greiða, óvelkomin kynferðisleg eða kynbundin stríðni, athugasemdir og spurningar, óvelkomin snerting svo sem þukl, tölvupóstsendingar með kynferðislegu efni eða gríni og veggspjöld með myndefni sem niðurlægja annað kynið.