Í júní árið 2023 staðfesti Landsréttur þá túlkun sem áður hafði komið fram í dómi Félagsdóms þar sem deilt var um hvort starfsfólki bæri skylda til að mæta til trúnaðarlæknis í veikindum. Þar var fjallað um ákvæði kjarasamnings sem snýr að trúnaðarlæknum en slík ákvæði eru almennt sambærileg heilt yfir á íslenskum vinnumarkaði.
Ákvæðin snúa að aðkomu trúnaðarlæknis þegar starfsfólk verður óvinnufært vegna veikinda eða slyss. Í flestum kjarasamningum segir að starfsfólk, sem er óvinnufært vegna veikinda eða slyss, þurfi að gangast undir hverja þá venjulegu og viðurkenndu læknisrannsókn sem trúnaðarlæknir kann að telja nauðsynlega til þess að skorið verði úr því hvort forföll séu lögmæt en einnig leita atvinnurekendur til trúnaðarlækna til þess að fá staðfestingu á að starfsfólk hafi endurheimt starfshæfni sína, að loknu tímabili óvinnufærni.
Að gefnu tilefni þykir undirrituðum rétt að fjalla um þá framkvæmd eða það verklag sem ber að viðhafa í málum sem þessum, fara stuttlega yfir framangreinda dóma og leitast við að svara þeirri spurningu hvort starfsfólki beri skylda til að mæta til trúnaðarlæknis til að staðfesta starfshæfni sína eða eftir atvikum óvinnufærni.
Sjúklingur leiti til þess læknis sem hann treystir og þekkir
Í niðurstöðum Félagsdóms í máli nr. 3/2022 kemur meðal annars fram að ekki sé hægt að skýra kjarasamninga á þann hátt að atvinnurekandi geti skyldað starfsfólk til að mæta til trúnaðarlæknis. Að mati dómsins var ekki ráðið af kjarasamningi að trúnaðarlæknir þyrfti í öllum tilvikum að hitta starfsmann til að gefa út læknisvottorð, enda taldi dómurinn að unnt væri að sannreyna starfshæfni með öðrum hætti, svo sem á grundvelli sjúkraskrár og upplýsinga frá öðrum læknum. Dómurinn horfði til þess að meginreglan væri sú að sjúklingur gæti leitað til þess læknis sem honum hentaði best, sbr. 20. gr. laga um réttindi sjúklinga, og að heilsufar teldist til einkamálefna fólks sem nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar.
Í niðurstöðukafla dómsins sagði að heimild atvinnurekanda til að gefa starfsmanni fyrirmæli um að mæta til trúnaðarlæknis í því skyni að upplýsa um heilsufar sitt og eftir atvikum sæta skoðun væri talið íþyngjandi í garð starfsmannsins. Dómurinn taldi að orða hefði þurft svo afdráttarlausa heimild atvinnurekanda með skýrum hætti í kjarasamningi aðila hefði ætlunin verið að semja um hana. Þó taldi dómurinn ekki loku fyrir það skotið að aðstæður geti verið með þeim hætti að trúnaðarlæknir kæmist að niðurstöðu um að ekki væri mögulegt að gefa út læknisvottorð nema að undangengnu viðtali eða skoðun á viðkomandi starfsmanni þó ljóst væri að þær aðstæður heyrðu til undantekninga. Yrði starfsmaður í slíku tilviki ekki við beiðni trúnaðarlæknis um að mæta til viðtals eða skoðunar kynni það að leiða til þess að læknirinn gæti ekki með vottorði staðfest óvinnufærni eða eftir atvikum stafshæfni viðkomandi starfsmanns. Dómurinn komst því í stuttu máli að þeirri niðurstöðu að kjarasamningur aðila yrði ekki túlkaður með þeim hætti að í honum fælist skýlaus heimild atvinnurekanda til að gefa starfsmanni fyrirmæli um að mæta til trúnaðarlæknis. Það er háð mati trúnaðarlæknisins um það hvort hann telji nauðsynlegt að hitta og framkvæma skoðun á viðkomandi sjúklingi.
Dómur Landsréttar í máli nr. 168/2022 staðfesti túlkun Félgsdóms, þ.e. að starfsfólki beri að jafnaði ekki skylda til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni í veikindaforföllum. Í málinu var meðal annars ágreiningur um hvort starfsmanni hafi borið skylda til að sæta skoðun hjá trúnaðarlækni. Landsréttur vísaði til ofangreindrar niðurstöðu Félagsdóms og sagði hana hafa fordæmisgildi við úrlausn málsins. Dómurinn taldi að ákvæði kjarasamninga um trúnaðarlækna fælu ekki í sér skýlausa skyldu til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni atvinnurekanda.
Starfsmaðurinn í umræddu máli hafði aflað sér þriggja læknisvottorða á meðan á veikindatímabili stóð. Vottorðin kváðu samkvæmt efni sínu á um að starfsmaðurinn hefði verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms um tveggja mánaða tímabil. Starfsmanninum var ekki skylt að mæta til trúnaðarlæknis atvinnurekanda til skoðunar en hins vegar stóð ekkert í vegi fyrir því að aflað yrði vottorðs trúnaðarlæknis samkvæmt ákvæðum kjarasamnings þeim er gilti um starfskjör starfsmannsins. Taldi dómurinn að það hefði staðið atvinnurekanda nær að ganga eftir því, í kjölfar þess að starfsmaðurinn mætti ekki til boðaðrar skoðunar hjá trúnaðarlækni, að læknirinn ynni allt að einu vottorð um heilsufar eftir þeim reglum sem gilda um gerð slíkra vottorða.
Var talið að starfsmaðurinn hefði fært á það sönnur með þeim læknisvottorðum sem hann aflaði og kom til atvinnurekanda að hann hefði verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms á umræddu tímabili. Dómurinn féllst því ekki á þá afstöðu atvinnurekandans að starfsmaðurinn hafi með því að mæta ekki til skoðunar hjá trúnaðarlækni brotið gegn kjarasamningsbundnum skyldum sínum.
Af ofangreindu virtu verður að ganga út frá því það sé ekki alltaf nauðsynlegur undanfari þess að trúnaðarlæknir geti staðfest óvinnufærni eða starfshæfni starfsmanns að starfsmaður mæti til skoðunar hjá trúnaðarlækni. Í kjarasamningsákvæðunum er enda ekki vikið að því með hvaða hætti trúnaðarlæknir skuli leggja mat á starfshæfni starfsmanns eða hver skuli vera undanfari útgáfu læknisvottorðs hans.
Starfsfólki ber ekki að mæta til trúnaðarlæknis nema í undantekningartilvikum
Samkvæmt framangreindu ættu atvinnurekendur ekki að óska sjálfkrafa eftir læknisskoðun af hendi trúnaðarlæknis þegar starfsfólk verður óvinnufært um lengri tíma eða stefnir á endurkomu til starfa eftir tímabil óvinnufærni. Atvinnurekandi hefur heimild til þess að óska eftir aðkomu trúnaðarlæknis en það er síðan mat trúnaðarlæknis hvort hann þurfi að framkvæma skoðun á viðkomandi starfsmanni. Sú ákvörðun ætti að vera tekin eftir mat á fyrirliggjandi gögnum og eftir atvikum samtöl við þann lækni eða þá lækna sem hafa áður vottað um óvinnufærni eða starfshæfni viðkomandi starfsmanns. Því miður virðast sumir atvinnurekendur líta svo á að þrátt fyrir niðurstöðu þeirra dóma sem raktir eru hér að ofan þá verði starfsmaður ávallt að sæta skoðun trúnaðarlæknis. Þannig geti trúnaðarlæknir ekki vottað um starfshæfni starfsmanns nema starfsmaðurinn mæti til læknisskoðunar eða viðtals, og ef starfsmaður neitar geti það leitt til þess að hann fyrirgeri rétti hans til greiðslu launa í veikindum eða rétti til að koma til baka eftir veikindi. Reykjavíkurborg er einn þeirra atvinnurekenda, en borgin hefur samið við einkafyrirtæki sem sér alfarið um þessi mál og vísar til þess fyrirtækis ef gerðar eru athugasemdir við verklagið. Undirrituð hafna þessari túlkun og telja hana fara þvert gegn niðurstöðu þeirra dóma sem hér hafa verið til umfjöllunar.
Ef atvinnurekandi telur aðkomu trúnaðarlæknis nauðsynlega ætti verklagið að vera með þeim hætti að trúnaðarlæknir kynni sér mál viðkomandi starfsmanns, setji sig í samband við lækni eða aðra meðferðaraðila viðkomandi starfsmanns og leggi mat á það hvort þörf sé á því að viðkomandi starfsmaður mæti til læknisskoðunar. Í þessu sambandi má benda á að hin hefðbundnu læknisvottorð gera ráð fyrir því að þriðji aðili geti leitað upplýsinga hjá þeim lækni sem gefur þau út, og því geta trúnaðarlæknar fengið allar upplýsingar um heilsufar viðkomandi frá þeim lækni ef þörf er á.
Það er ekki útilokað að aðstæður geti verið með þeim hætti að trúnaðarlæknir komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé mögulegt að staðfesta óvinnufærni eða starfsfærni nema að undangengnu viðtali eða skoðun á viðkomandi starfsmanni. Þegar þær aðstæður eru uppi er skiljanlegt að viðkomandi starfsmaður þurfi að mæta til trúnaðarlæknis. Hins vegar er ljóst að þetta á við um undantekningartilvik.
Niðurstaðan eðlileg og sanngjörn
Undirrituð telja túlkun Félagsdóms og Landsréttar sanngjarna og eðlilega. Því miður er of algengt að atvinnurekendur skyldi starfsfólk til að sæta skoðun hjá trúnaðarlækni atvinnurekanda þegar veikindi starfsfólks verða langvarandi. Þetta á við bæði þegar starfsfólk fer í veikindaleyfi og eru frá vinnu í einhvern tíma, eða þegar atvinnurekandi óskar eftir staðfestingu þess efnis að starfsmaður sé fær um að koma aftur til starfa. Jafnframt er nauðsynlegt að reglur séu skýrar og að starfsfólk sé upplýst um það verklag sem skuli viðhafa, enda getur verið íþyngjandi fyrir starfsmann að fá fyrirmæli um að mæta til trúnaðarlæknis í því skyni að upplýsa um heilsufar sitt og eftir atvikum sæta skoðun. Það er sérstaklega þungbært ef trúnaðarlæknir kemst að annarri niðurstöðu um starfshæfni starfsmanns heldur en heimilislæknir eða sérfræðilæknir viðkomandi hefur komist að, sem þá útilokar starfsmann frá endurkomu til starfs síns að loknum veikindum, og grundvallaratriði að slíkt mat sé þá byggt á málefnalegum og réttmætum forsendum.
Undirrituð binda vonir við að framkvæmdin í þessum málum verði betri en verið hefur og að niðurstöður dómanna verði virtar, öllum til hagsbóta. Með það að leiðarljósi verður opinberum atvinnurekendum sent erindi þar sem farið verður yfir framangreinda framkvæmd sem ber að viðhafa í þessum málum, og vísað til þeirra þau dómafordæma sem liggja til grundvallar og fjallað hefur verið um hér að ofan.
Höfundar eru lögfræðingar hjá BSRB og Sameyki