Samningafundi SFR, SLFÍ og LL við samninganefnd ríkisins lauk fyrir stundu. Ljóst er að fjármálaráðherra hefur sent samninganefnd sína án samningsumboðs á fundinn. Hann var því árangurslaus og ekki var boðað til nýs fundar. Staðan í samningaviðræðum félaganna við ríkið er grafalvarleg enda skellur á verkfall hjá félagsmönnum SFR og SLFÍ sem starfa hjá ríkinu þann 15. október ef samningar nást ekki fyrir þann tíma.
Skv. frétt á vef SFR segir að: "...mikið ber á milli aðila. Ríkisstjórnin, með fjármálaráðherra í broddi fylkingar, hefur ákveðið að hluti starfsmanna ríkisins, félagsmenn SFR og SLFÍ, eigi ekki að njóta sambærilegra launahækkana og aðrir ríkisstarfsmenn hafa fengið í gegnum gerðardóm og samninga. Fjármálaráðherra hefur lagt þá línu að ekki eigi að semja við starfsmenn sýslumannsembætta, tollstjóra, háskólans, landspítalans, fangaverði, sjúkraliða, lögreglumenn og fleiri á sambærilegum nótum. Þessi skilaboð frá fjármálaráðherra verða ekki skilin á annan hátt en að ríkisvaldið telur að þessar stéttir eigi ekki að njóta sambærilegra launabreytinga og aðrar stéttir hjá hinu opinbera. Þetta er með öllu ólíðandi."
Félögin munu nú hefjast handa við að undirbúa verkföll af fullum krafti.