Réttindi launafólks aukin með nýrri tilskipun ESB

Fróðleikur
Tilskipun ESB um samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs mun hafa áhrif á íslenskt launafólk.

Ýmis ný réttindi fyrir launafólk er að finna í nýsamþykktri tilskipun Evrópusambandsins (ESB) um samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þar sem Ísland er aðili að EES samningnum mun þurfa að innleiða tilskipunina á Íslandi. Ekki liggur fyrir hvernig eða hvenær það verður gert, en það er bæði hægt að gera með lögum og kjarasamningum.

Í tilskipuninni felast ýmis réttindi fyrir launafólk. Þar á meðal er innleiddur réttur feðra til greidds fæðingarorlofs í tvær vikur. Þó fæðingarorlof feðra hafi verið við lýði á Íslandi og á Norðurlöndum í einhvern tíma er sá réttur alls ekki almennur í Evrópu. Þessi breyting mun því hafa víðtæk áhrif í átt að auknu jafnrétti foreldra, þó breytingin muni ekki hafa áhrif hér.

Í tilskipuninni felast þó einnig réttindi sem munu hafa áhrif hér á landi. Réttur til foreldraorlofs, sem er réttur til orlofs til að annast barn í allt að fjóra mánuði, verður greiddur. Hingað til hefur orlofið verið launalaust. Aðildarríki ESB og EES hafa svigrúm til þess að ákveða fjárhæð greiðslnanna, en lögð er áhersla á að greiðslurnar séu þess eðlis að þær hvetji báða foreldra til þess að taka foreldraorlof. Þá er einnig kveðið á um umönnunarleyfi, það er fimm daga af greiddu leyfi til þess að annast ættingja sem þurfa umönnun. Í íslenskum kjarasamningum er réttur til þess að annast börn í veikindum og má líta svo á að sá réttur verði að einhverju leyti rýmkaður með þessari tilskipun. Þessi breyting er í takt við stefnu BSRB.

Þá er einnig kveðið á um rétt foreldra ungra barna til að krefjast sveigjanleika í vinnu. Í jafnréttislögum er nú þegar ákvæði um samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs, en tilskipuninni er ætlað að styrkja þann rétt sem launafólk hefur.

BSRB mun fylgjast vel með innleiðingu tilskipunarinnar til þess að tryggja að réttindi launafólks og fjölskyldna þeirra séu tryggð með sem bestum hætti.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?