Heimsfaraldurinn flýtir breytingum á vinnumarkaði

Fróðleikur
Fjölgun aldraðra og áhersla á hærra þjónustustig mun fjölga störfum í heilbrigðis- og félagsþjónustunni.

COVID-19 heimsfaraldurinn virðist hraða þeirri þróun á vinnumarkaði sem spáð hefur verið á komandi árum þar sem störfum innan ákveðinna starfsgreina mun fækka á meðan ný störf verða til í öðrum geirum.

Á undanförnum árum hefur því verið spáð að miklar breytingar verði sem hafi það í för með sér að störfum muni fækka innan ákveðinna starfsgreina. Þetta mun gerast í kjölfar tæknibreytinga og aukinnar gervigreindar. Þá er viðbúið að störf á ýmsum sviðum verði ótryggari vegna óljósara ráðningasambands og skertra réttinda. Á móti er því spáð að ný störf verði til, meðal annars tengd notkun tölvu- og hátækni, viðbrögðum við hlýnun jarðar og þróun í átt að grænu hagkerfi. Allt krefst þetta nýrrar hugsunar og nýrra vinnubragða sem kalla á ný eða breytt störf. Þá verður aukin þörf fyrir starfsfólk innan heilbrigðis- og félagsþjónustu vegna fjölgunar aldraðra og áherslu á hærra þjónustustig.

Þessar breytingar munu hafa í för með sér hættu á að ákveðnir hópar fólks muni standa verr að vígi á vinnumarkaði en aðrir, einkum eldra fólk sem hefur ekki lokið mikilli formlegri menntun og sinnir einhæfum störfum. Fólk með lengri menntun og sérhæfðari starfsreynslu stendur betur að vígi og munu sumir hverjir hafa hag af þessum breytingum.

Langtímaáhrif heimsfaraldursins

Allmargar rannsóknir og greiningar hafa verið gerðar á alþjóðavísu síðustu misseri á langtímaáhrifum COVID-19 heimsfaraldursins á vinnumarkaðinn. Svo virðist sem faraldurinn sé heldur að hraða þeirri þróun sem hér hefur verið rakin og þurfa stjórnvöld að hafa varan á að ákveðnir hópar festist ekki í ótryggri stöðu á vinnumarkaði, atvinnuleysi og fátækt. Þá er bent á að neikvæðari hliðar þessara breytinga komi skýrar fram í þeim löndum sem skemmra eru á veg komin í tækniþróun og nýtingu tölvutækni og auki þannig mun milli fátækari ríkja og þeirra betur settu.

Fyrirtæki og stofnanir í löndum sem standa framar tæknilega hafa getað nýtt sér fjarvinnu og vinnu að heiman í meira mæli og fólk því síður misst ráðningarsamband þó svo umsvif hafi minnkað. Þetta er þó eðlilega afar misjafnt eftir eðli starfa og mismunandi milli atvinnugreina. Þannig er þetta heilt yfir að hafa verri áhrif á störf sem krefjast minni menntunar og störf sem eru einhæf og byggjast á endurtekningu og má gera ráð fyrir að sú þróun gangi ekki til baka nema að litlu leyti þegar heimsfaraldurinn er að baki.

Menntakerfið, símenntun og náms- og starfsráðgjöf

Ofangreindar rannsóknir ítreka þörfina fyrir öfluga sí- og endurmenntun nú þegar þær sviptingar sem fylgja heimsfaraldrinum bætast ofan á aðrar hraðfara breytingar á vinnumarkaði. Sama er að segja um náms- og starfsráðgjöf. Sífellt mikilvægara er að ungt fólk njóti leiðsagnar við náms- og starfsval og eins verður þörf fyrir ráðgjöf og stuðning við fólk á öllum aldri stöðugt meiri, þar sem fólk mun í framtíðinni hafa þörf fyrir að bæta við sig nýrri þekkingu og hæfni til að mæta hröðum breytingum á vinnumarkaði.

Að sama skapi er afar mikilvægt að menntakerfið bregðist við þessum áskorunum með aukinni þróun í átt til kerfis sem býður upp á viðbótarnám í anda sí- og endurmenntunar frekar en að miða fyrst og fremst við að mennta ungmenni til ákveðinna starfa. Einnig þarf að huga að því hvaða hæfniþætti er einkum lögð áhersla á að þjálfa ungt fólk í innan skólakerfisins. Þörf fyrir hæfniþætti á vinnumarkaði er að breytast og á eftir að taka frekari breytingum á komandi árum. Rannsóknir sýna að fólk sem hefur tileinkað sér ákveðna hæfni stendur betur á vinnumarkaði en aðrir, verður síður atvinnulaust, hefur að jafnaði hærri tekjur og metur starfs- og lífsaðstæður sínar almennt betri. Á hinn bóginn endurspeglar námsefni og kennsluaðferðir hins hefðbundna skólakerfis misvel þessar breyttu áherslur og oft er skólakerfið nokkuð lengi að taka breytingum í átt að nýrri hugsun.

Yfirvöld mennta- og vinnumarkaðsmála þurfa að vera vakandi fyrir þeim breytingum sem eru að eiga sér stað á vinnumarkaði. Bæði er mikilvægt að hið hefðbundna skólakerfi hafi sveigjanleika og geti brugðist hratt við breyttum aðstæðum, og eins að sí- og endurmenntunarkerfinu séu tryggð næg úrræði og fjármagn til að mæta þeim auknu áskorunum sem fylgja breytingum á vinnumarkaði á komandi árum.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?