Þegar efnahagskreppan sem kom í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveirunnar skall á af fullum þunga þurfti að taka fjármálareglur stjórnvalda, sem setja ríkisstjórnum skorður þegar kemur að útgjöldum, úr sambandi. BSRB studdi þá aðgerð en kallaði um leið eftir því að reglurnar verði endurskoðaðar áður en þær taka gildi að nýju.
Þessar fjármálareglur komu til með lögunum um opinber fjármál frá 2015. Þar kemur fram að þegar ný ríkisstjórn tekur við á hún að gefa út fjármálastefnu. Í henni á að koma fram hvernig stefnan standist þau grunngildi og fjármálareglur sem kveðið er á um í lögum. Grunngildin eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gegnsæi. Gildin eru skýrð nánar í lögunum en sem dæmi má nefna að gildið um varfærni á að stuðla að því að hæfilegt jafnvægi sé milli tekna og gjalda.
Fjármálareglurnar eru þrjár. Upptalning þeirra er ansi þurr lesning en innihald þeirra er þeim mun mikilvægara. Fyrsta reglan segir að tekjur ríkis og sveitarfélaga eigi að vera hærri en útgjöldin yfir fimm ára tímabil. Það þýðir að þó að það sé halli á rekstrinum í eitt eða fleiri ár þá þurfi afgangurinn að vera þeim mun meiri hin árin innan þessa fimm ára tímabils. Auk þess má árlegur halli aldrei vera meiri en sem nemur 2,5 prósentum af vergri landsframleiðslu. Verg landsframleiðsla er markaðsvirði fullunninnar vöru og þjónustu sem framleidd er á Íslandi á hverju ári. Árið 2019 var verg landsframleiðsla rúmlega 3.000 milljarðar króna sem þýðir að hallinn af rekstri ríkis- og sveitarfélaga mátti ekki vera meiri en um 75 milljarðar. Það ár var hallinn hins vegar um 46 milljarðar og því innan marka laganna.
Skorður á skuldir
Önnur fjármálareglan segir að heildarskuldir hins opinbera verði að vera innan við 30 prósent af vergri landsframleiðslu. Þar fyrir utan eru lífeyrisskuldbindingar og viðskiptaskuldir og bankainnstæður og sjóðir eru dregnir frá. Árið 2019 námu heildarskuldir hins opinbera um 30 prósentum af vergri landsframleiðslu og voru því í samræmi við lögin.
Þriðja fjármálareglan segir til um það hvað gerist ef opinberar heildarskuldir fari umfram 30 prósent af vergri landsframleiðslu. Þá þarf að hækka tekjur eða skera niður útgjöld svo hægt sé að greiða niður skuldir um 5 prósent á ári að meðaltali fyrir hvert þriggja ára tímabil.
Þegar efnahagskreppan sem fylgir heimsfaraldri COVID-19 skall á var augljóst að fjármálareglurnar myndu ekki halda. Hallinn á rekstrinum jókst gríðarlega og þar með skuldirnar. Alþingi ákvað því að taka reglurnar úr sambandi tímabundið til ársins 2026. BSRB studdi það og benti einnig á að nauðsynlegt væri að endurskoða reglurnar áður en þær taki gildi að nýju.
Góðar ástæður til að endurskoða
Ástæðurnar fyrir því að BSRB vill að fjármálareglurnar verði endurskoðaðar eru nokkrar. Þar má nefna að tekjur ríkisins standa ekki undir útgjöldum í eðlilegu árferði vegna þessa að skattar hafa verið lækkaðir án þess að aðrar tekjur séu auknar á móti.
Áform eru uppi um að skera niður í rekstri til að uppfylla gildið um varfærni og stöðva skuldasöfnun. BSRB hefur bent á mikilvægi þess að afla tekna frekar enn að skera niður þjónustu við almenning og auka álag á starfsfólk. Mikilvægt er að reglan um hallalausan rekstur verði ekki notuð sem afsökun til að draga úr opinberri þjónustu og selja eignir. Hvað varðar fjármálaregluna um skuldahlutfallið þá er leyfilegt hlutfall of lágt. Flest ríki eru með það hærra og sem dæmi má nefna að reglurnar fyrir Evruríkin eru 60 prósent skuldahlutfall af vergri landsframleiðslu.
Síðustu ár hefur verið lögð rík áhersla á það hér á landi að greiða niður skuldir en það hefur leitt til þess að minna fé hefur verið varið í rekstur, almannatryggingar og fjárfestingar. Skuldareglan má ekki verða til þess að opinber þjónusta dragist saman, ójöfnuður aukist og fjárfestingar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðrar þær fjárfestingar sem leiða til verðmætasköpunar og velsældar til lengri tíma verði vanræktar.