Frestur til að sækja um nám í Norræna lýðháskólanum í Genf, Genfarskólanum, á næsta ári rennur út þann 15. desember næstkomandi. Skólinn er ætlaður virkum félögum í stéttarfélögum sem hafa áhuga á alþjóðlegu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar.
Æskilegt er að umsækjendur hafi sótt fræðslustarf verkalýðshreyfingarinnar og þekki til starfsemi stéttarfélaganna og samtaka þeirra hér á landi. Aðild að Genfarskólanum eiga MFA-samböndin í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og hér á landi.
Skólinn er haldinn samhliða Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf og dregur nafn sitt af því. Nemendur kynnast þinghaldinu og Alþjóðavinnumálastofnuninni, ILO, sem starfar að vinnumálum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar á ILO-þinginu eru frá stjórnvöldum, atvinnurekendum og samtökum launafólks um allan heim. Þátttakendur kynnast norrænu samstarfi á vettvangi ILO og geta kynnt sér ýmis alþjóðasamtök verkalýðshreyfingarinnar sem starfa í tengslum við ILO.
Þeir nemendur sem fá inngöngu í skólann sækja námskeið í Runö í Svíþjóð 16. til 19. apríl en að því loknu tekur við fjarnám þar til þátttakendur fara út á aðalnámskeiðið í Genf í Sviss frá 21. maí til 9. júní.
Námið fer fram í formi fjarnáms, fyrirlestra, hópastarfs og þátttakendur fylgjast með fundum Alþjóðavinnumálaþingsins og nefndarstarfi þess. Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi gott vald á einu norðurlandamáli og hafi auk þess góða enskukunnáttu.
Kostnaður greiddur af BSRB og ASÍ
Íslensku þátttakendurnir á Genfarskólanum hafa verið tveir undanfarin ár. Þeir hafa sótt fundi hér á landi, sem haldnir hafa verið til undirbúnings þátttöku í skólanum. Kynningarfundir verða haldnir í byrjun mars. Á kynningarfundunum munu þátttakendur m.a. hitta fulltrúa Íslands sem sækja ILO þingið, ásamt þátttakendum síðasta árs.
BSRB og ASÍ greiða námskeiðsgjöld, gistingu og flugfargjöld fyrir einn þátttakanda hvor samtök.
Sótt er um á vef Genfarskólans þar sem einnig má finna nánari upplýsingar um námið. Hægt er að hlusta á fulltrúa Íslands í Genfarskólanum síðastliðið sumar tala um reynsluna af náminu í hlaðvarpi ASÍ.