BSRB fagnar því að til standi að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði en kallar jafnframt eftir því í umsögn að orlofið skiptist jafnt milli foreldra svo hvort foreldri fyrir sig eigi rétt á sex mánaða orlofi.
Bandalagið hefur beitt sér fyrir lengingu fæðingarorlofsins lengi. Fulltrúi BSRB tók þátt í vinnu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem skilaði ráðherra skýrslu árið 2016. Þá stóð BSRB fyrir átakinu Betra fæðingarorlof ásamt Alþýðusambandi Íslands árið 2017, auk þess sem 45. þing bandalagsins ályktaði sérstaklega um fæðingarorlof og dagvistun haustið 2018.
Eins og fram kemur í umsögn BSRB um frumvarp um lengingu á rétti til fæðingarorlofs, sem hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, er bandalagið þeirrar skoðunar að réttur til fæðingarorlofs eigi að skiptast jafnt milli foreldra. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hvort foreldri fái fimm mánuði og foreldrar geti skipt síðustu tveimur mánuðunum á milli sín.
„Markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof eru tvíþætt, annars vegar að tryggja samvistir barna við foreldra sína og hins vegar að gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Tölur frá Fæðingarorlofssjóði sýna að mæður nýta nánast allan sameiginlega réttinn og feður þann tíma sem þeim er úthlutað. Tölur frá hinum Norðurlöndunum segja sömu sögu,“ segir meðal annars í umsögninni.
Verði skipting fæðingarorlofsins jöfn myndi fjarvera foreldra frá vinnumarkaði vegna barneigna verða jafn löng. Áhrifin af tímabundnu brotthvarfi af vinnumarkaði yrðu því þau sömu fyrir karla og konur. Það yrði einnig mikilvæg aðgerð til að jafna möguleika foreldra til samveru með barni sínu og að taka þátt í uppeldi barna og heimilishaldi.
Dagvistunarmál verði tekin til skoðunar
Í umsögninni er einnig vikið að dagvistunarmálum barna að fæðingarorlofi loknu. Eins og fram kom í skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði, sem gefin var út árið 2017, er réttur barna til dagvistunar afar misjafn eftir sveitarfélögum. Ísland sker sig úr frá hinum Norðurlöndunum þar sem hér eiga börn ekki lögbundinn rétt til dagvistunar.
Starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum lagði til að öllum börnum yrði tryggt leikskólapláss við tólf mánaða aldur, um leið og fæðingarorlofi lýkur. Hópurinn kallaði eftir því að skipuð yrði sérstök verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga til að vinna að því. Þeirri tillögu hefur ekki verið fylgt eftir. BSRB kallar því eftir því að dagvistunarmál verði tekin til skoðunar í félagsmálaráðuneytinu á ný.
Lestu umsögn BSRB um frumvarp til laga um lengingu á rétti til fæðingarorlofs.