Þokast aðeins í samkomulagsátt í kjaraviðræðum

Samninganefnd BSRB hefur fundað með viðsemjendum auk þess sem smærri hópar hafa fundað á vinnufundum.

Heldur hefur þokast í átt að samkomulagi í kjaraviðræðum BSRB við viðsemjendur. Áfanga hefur verið náð í umræðum um styttingu vinnuvikunnar í samtali við ríkið og vonir standa til að sambærileg niðurstaða náist í viðræðum við sveitarfélögin.

Samningseiningar BSRB funduðu fyrir hádegi í dag til að ræða stöðuna í viðræðunum. Á fundinum, sem formenn aðildarfélaga og aðrir sem koma að samningsvinnunni sátu, var ákveðið að halda áfram á þeirri braut sem lagt hefur verið upp með í vinnunni hjá ríkissáttasemjara.

Sá áfangi sem náðst hefur um styttingu vinnuvikunnar í viðræðunum nær eingöngu til dagvinnufólks og því eftir að taka upp samtalið um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnuhópum, en BSRB hefur lagt mikla áherslu á styttingu vinnutíma hjá þeim hópi.

„Þetta er aðeins að þokast en við sjáum ekki fyrir endann á þessu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Hún hefur segir bandalagið hafa þann skýra fyrirvara að ná þurfi saman um aðra þætti í viðræðunum til að sá áfangi sem náðst hefur um styttingu vinnuvikunnar haldi.

BSRB fer með samningsumboð fyrir hönd aðildarfélaga um stór sameiginleg mál. Þau stærstu eru stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar, launaþróunartrygging og jöfnun launa milli markaða. Önnur mál, svo sem launahækkanir og sértæk mál sem varða einstök félög, eru á borði einstakra aðildarfélaga sem munu semja um það beint við viðsemjendur.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?