Kjaraviðræður BSRB og aðildarfélaga bandalagsins hafa haldið áfram hjá ríkissáttasemjara undanfarið. Haldnir hafa verið vinnufundir þétt undanfarna daga þar sem unnið er að útfærslu á styttingu vinnuvikunnar, sem hefur verið ein helsta krafa BSRB í viðræðunum.
„Við eigum enn eftir langt í land og ljóst að það er farið að gæta verulegrar óþreyju meðal okkar félaga,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Samningar aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í byrjun apríl. Viðræður eiga sér stað við ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.
Samningseiningar BSRB funduðu í síðustu viku til að fara yfir það sem fram hefur komið í kjaraviðræðunum og leggja línurnar fyrir áframhaldandi viðræður. Á fundinum var samninganefnd BSRB hvött til að halda áfram á sömu braut og halda til streitu kröfum bandalagsins í viðræðunum.
Aðildarfélög BSRB hafa veitt BSRB umboð til að semja um ákveðin sameiginleg málefni en semja sjálf um sértæk málefni og launahækkanir til síns félagsfólks.
Kröfur BSRB skýrar
Kröfur BSRB í viðræðunum hafa meðal annars snúið að stærsta baráttumáli bandalagsins undanfarin ár, styttingu vinnuvikunnar. Þar hefur bandalagið gert kröfu um að vinnuvikan verði stytt í 35 stundir án launaskerðingar og að styttingin verði enn meiri hjá vaktavinnufólki.
Tilraunaverkefni ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem unnin voru í samstarfi við BSRB, sýna svo ekki er um að villast að stytting vinnuvikunnar hefur gagnkvæman ávinning fyrir launafólk og atvinnurekendur.
Bandalagið hefur einnig gert kröfu um að stjórnvöld efni loforð um jöfnun launa á milli markaða, sem er í samræmi við samkomulag um lífeyrismál sem undirritað var haustið 2016. Rannsóknir sýna að laun opinberra starfsmanna eru 16 til 20 prósent lægri en laun sambærilegra stétta á almennum vinnumarkaði. Í samkomulaginu frá 2016 var skýrt kveðið á um að þeim launamun eigi að útrýma á 6 til 10 árum. Ekkert hefur bólað á útfærslu á þessu frá viðsemjendum og því ekkert annað að gera en að draga kröfuna fram í kjarasamningsviðræðunum.
Þá hefur bandalagið krafist þess að áfram verði samið svokallaða launaþróunartryggingu að norrænni fyrirmynd sem samið var um í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins 2015. Með slíkri launaþróunartryggingu er opinberum starfsmönnum tryggt það launaskrið sem verðu á almennum vinnumarkaði. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.