BSRB leggst alfarið gegn því að tryggingagjald sé lækkað án þess að búið sé að lengja fæðingarorlof og hækka hámarksgreiðslur til foreldra. Þetta kemur fram í umsögn bandalagsins um fjárlagafrumvarp næsta árs, sem send var Alþingi í dag.
Í umsögninni, sem birt hefur verið í heild sinni á vef BSRB, er ítrekuð sú afstaða bandalagsins að fylgja verði eftir niðurstöðu meirihluta starfshóps um breytingar á fæðingarorlofskerfinu. Þær voru að greiðslur í fæðingarorlofi verði óskertar að 300 þúsund krónum og að fæðingarorlofið verði lengt úr níu mánuðum í tólf. Þá telur BSRB að hækka þurfi hámarksgreiðslur úr sjóðnum í 650 þúsund krónur, sem er í samræmi við niðurstöðu hópsins þegar upphæðin hefur verið uppreiknuð á verðlag ársins 2018.
Þá telur BSRB einnig mikilvægt að það bil sem verður á milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða fyrir börn, svokallað umönnunarbil, verði brúað.
Sé fyrirhuguð lækkun tryggingargjalds á kostnað þessara breytinga á fæðingarorlofskerfinu og dagvistunarmálum leggst BSRB alfarið gegn lækkuninni.
Í umsögn BSRB er einnig lögð áhersla á að dregið verði úr skerðingum í bótakerfum. Bent er á að mikið hafi dregið úr útgjöldum til barnabóta undanfarin ár og nú sé nægt svigrúm til að hækka grunnfjárhæðir án þess að hækka skerðingarprósentur á móti.
Skerðing á bótum haft alvarlegar afleiðingar
Þá er gerð athugasemd við að vaxta- og húsnæðisbætur sitji eftir þrátt fyrir miklar hækkanir á húsnæðisverði og húsaleigu. Bandalagið leggur áherslu á að húsnæðisstuðningur verði veittur óháð búsetuformi þannig að leigjendur fái sambærilegan stuðning og eigendur húsnæðis fá í formi vaxtabóta.
Bent er á í umsögn BSRB að almennt hefur dregið stórlega úr bótum á undanförnum árum og að það hafi haft alvarlegar afleiðingar. „ Þær hækkanir lágmarkslauna sem samið hefur verið um í kjarasamningum á undanförnum árum hafa því ekki skilað sér með þeim hætti sem til var ætlast heldur hafa skattahækkanir og lækkun bóta valdið því að ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna hafa aukist minna en annarra,“ segir meðal annars í umsögninni.