Tóku fyrstu skóflustunguna að íbúðum í Úlfarsárdal

Það var vaskur hópur sem tók fyrstu skóflustungurnar að nýjum íbúðakjarna Bjargs íbúðafélags við Urðarbrunn í Úlfarsárdal í blíðunni í Reykjavík í dag.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og stjórnarmenn úr Bjargi íbúðafélagi tóku í dag fyrstu skóflustungurnar að 83 nýjum leiguíbúðum við Urðarbrunn 130 til 132 í Úlfarsárdal í Reykjavík.

Þetta er annað verkefni Bjargs sem komið er á framkvæmdastig en í febrúar var tekin fyrsta skóflustungan að íbúðakjarna við Móaveg í Spönginni í Grafarvogi. Framkvæmdir við Móaveg eru komnar vel á veg en þar munu 155 íbúðir rísa. Reiknað er með að fyrstu íbúðirnar verði afhentar í júní 2019.

Bjarg íbúðafélag áformar umfangsmikla uppbyggingu á leiguíbúðum á næstu misserum. Reiknað er með að um 450 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok þessa árs og rúmlega 1.000 til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum. Íbúðir í fyrsta áfanga verða meðal annars í Reykjavík, á Akranesi, Akureyri, Þorlákshöfn og Sandgerði. Þá á félagið í viðræðum við sveitafélög víðar á landinu.

Stefnt er á að næstu byggingarframkvæmdir félagsins, hefjist í haust við Hallgerðargötu við Kirkjusand í Reykjavík en þar verða byggðar 80 íbúðir. Þá er hafin forhönnun 33 íbúða sem rísa munu á Akranesi.

Byrja að skrá á biðlista bráðlega

Byggingarfélagið Eykt mun sjá um byggingu fjölbýlishúsanna við Urðarbrunn, Verkfræðistofan Mannvit sér um verkfræðihönnun og arkitekt er THG arkitektar.

Bjargi er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Íbúðir félagsins verða því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn.

Verið er að ganga frá undirbúningi vegna skráningar á biðlista vegna íbúðanna sem verður gert í gegnum vef félagsins. Auglýst verður sérstaklega þegar opnað verður fyrir skráningu á biðlista.

Lestu meira um Bjarg íbúðafélag hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?