Sonja Ýr Þorbergsdóttir er nýr formaður BSRB, en kjöri til stjórnar bandalagsins er nýlokið á 45. þingi BSRB á Hilton hótel Nordica.
Tveir voru í framboði og hlaut Sonja 86,3 prósent atkvæða þingfulltrúa en Vésteinn Valgarðsson 13,7 prósent. Elín Björg Jónsdóttir, fráfarandi formaður BSRB, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu.
„Ég hlakka til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru. Hér á þingi BSRB höfum við mótað í sameiningu skýra sýn í stefnu og ályktunum sem við munum fylgja kröftuglega eftir,“ sagði Sonja þegar hún ávarpaði þingið eftir að úrslitin höfðu verið kunngjörð. „Ég er sannfærð um að saman munum við stuðla að breytingum og betra samfélagi fyrir okkar félagsmenn, í vinnu sem einkalífi.“
Þing BSRB kaus einnig tvo varaformenn og sex meðstjórnendur í níu manna stjórn bandalagsins. Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar var kjörinn 1. varaformaður og Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar – Stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu var kjörin 2. varaformaður. Meðstjórnendur eru þau Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, Helga Hafsteinsdóttir, formaður Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Karl Rúnar Þórsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna og Jón Ingi Cæsarsson, formaður Póstmannafélags Íslands.
Þá voru kjörnir fjórir varamenn í stjórn BSRB, þau Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins, Rita Arnfjörð, formaður Starfsmannafélags Kópavogs, Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, og Birna Friðfinnsdóttir, formaður Tollvarðafélags Íslands.