45. þing BSRB hefst á morgun

45. þing BSRB fer fram á Hilton hótel Nordica 17. til 19. október.

45. þing BSRB verður sett á Hilton Hótel Nordica miðvikudaginn 17. október klukkan 10. Þingið mun standa fram á föstudag og munu alls um 200 þingfulltrúar frá öllum aðildarfélögum bandalagsins sitja þingið.

Opnunarathöfn þingsins verður í beinni útsendingu á fréttavefnum Vísir.is og verður hlekkur á útsendinguna settur inn um leið og hún hefst.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, mun opna þingið með ávarpi. Að því loknu munu þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Jorunn Berland, formaður YS í Noregi (systurbandalags BSRB), ávarpa þingið.

Að ávörpum loknum mun Arnar Þór Jóhannesson, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, greina frá glænýjum niðurstöðum úr tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar, sem BSRB hefur tekið þátt í með Reykjavíkurborg annars vegar og ríkinu hins vegar.

Auk Arnars munu starfsmenn sem starfa á vinnustöðum sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefnunum fjalla um sína upplifun af styttri vinnuviku. Fyrst mun Arna Hrönn Aradóttir, verkefnastjóri Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, segja frá sinni reynslu en svo tekur Aðalheiður Sigursveinsdóttir, mannauðsstjóri Þjóðskrár, við og segir frá því hvernig hefur gengið að innleiða tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá stofnuninni.

Nýr formaður kosinn

Auk hefðbundinna þingstarfa verður ný forysta bandalagsins kosin á þinginu. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, hefur lýst því yfir að hún gefi ekki kost á sér til að gegna embættinu áfram og því ljóst að nýr formaður tekur við á þinginu. Kosið verður um formann, varaformenn og stjórn bandalagsins á föstudaginn.

Dagskrá þingsins og aðrar upplýsingar má finna á nýjum þingvef BSRB.

Vinsamlegast athugið að skrifstofa BSRB verður lokuð dagana 17. til 19. október vegna þingsins. Við munum reyna að svara erindum sem berast á netfangið bsrb@bsrb.is eftir því sem hægt er.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?