Upp úr slitnaði í kjaraviðræðum BSRB við ríkið á fundi í dag og hefur formaður BSRB boðað samningseiningar bandalagsins til fundar á morgun. Á fundinum verður lögð fram tillaga um að kjaradeilunni verði vísað til ríkissáttasemjara.
„Viðræður okkar við ríkið hafa ekkert þokast undanfarið og við munum gera því þá tillögu á fundi samningseininga BSRB á morgun að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Á fundi samninganefndar BSRB með samninganefnd ríkisins í dag lögðu fulltrúar ríkisins fram tillögu að lausn deilunnar sem bandalagið telur algjörlega óaðgengilega.
„Tilboð ríkisins var í raun það sama og samninganefndin lagði upp með við upphaf kjaraviðræðna í vor. Formaður samninganefndarinnar gerði okkur endanlega ljóst á fundinum að nefndin hefði ekki umboð til að ganga lengra,“ segir Sonja.
Helst er deilt um kröfu BSRB um styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir án kjaraskerðingar, með meiri styttingu fyrir vaktavinnufólk. Í tilboði ríkisins var miðað áfram við 40 stunda vinnuviku en opnað á möguleika á að samið yrði um að stytta vinnuvikuna á einstökum vinnustöðum með því að sleppa kaffitímum.
Óásættanlegt tilboð
„Þetta er algjörlega óásættanlegt tilboð og sýnir að ríkið hefur ekki verið í kjarasamningsviðræðum af heilum hug,“ segir Sonja. „Við höfum nú látið reyna á samningsvilja ríkisins svo mánuðum skiptir en nú þurfum við að ræða hvort kominn sé tími á að ríkissáttasemjari taki við verkstjórninni.“
Ekki er hægt að undirbúa aðgerðir til að knýja á um kröfurnar án þess að ríkissáttasemjari hafi gert tilraun til að miðla málum. „Það er miður ef það gengur ekki að semja öðruvísi en undir hótunum, en ef við þurfum að undirbúa aðgerðir til að undirstrika okkar kröfur þá munum við gera það,“ segir Sonja.