Nýr námsvísir Fræðslusetursins starfsmenntar fyrir komandi vetur er kominn á netið, auk þess sem prentuð eintök hafa verið send til skráðra félagsmanna. Þar kennir margra grasa og ljóst að félagsmenn aðildarfélaga BSRB geta sótt sér margskonar þekkingu.
Fjöldi námskeiða verður kenndur í gegnum vefinn þannig að þátttakendur geta verið hvar sem er á landinu og sinnt náminu á þeim tímum sem þeim hentar. Á meðal námskeiða sem kennd verða með því fyrirkomulagi eru námskeið í tölvuleikni, í Excel og Word, námskeið í Photoshop og vefsíðugerð auk ýmiskonar náms í þjónustustjórnun. Þá eru fjölmörg þverfagleg námskeið í boði, til dæmis til að efla sjálfstraust, bæta skipulagið og til að læra sáttamiðlun, svo einhver dæmi séu nefnd.
Starfsmennt býður einnig upp á ýmis önnur námskeið, til dæmis starfstengt nám fyrir ákveðnar atvinnugreinar. Þar má nefna námskeið fyrir bókara, fagnám í umönnun fatlaðra, nám fyrir heilbrigðisritara og stuðningsfulltrúa hjá skólum.
Þá eru í boði námskeið um kjör og velferð sem ætluð eru bæði starfsmönnum og stjórnendum þar sem til dæmis er fjallað um launajafnrétti, félagsfræðslu, vinnumarkaðasmál, heilbrigt vinnuumhverfi og stjórnun.
BSRB hvetur félagsmenn í aðildarfélögum bandalagsins til að kynna sér nýjan námsvísi Starfsmenntar fyrir veturinn 2019 til 2020 enda víst að flestir ættu að geta fundið áhugaverð námskeið og bætt færni sína og þekkingu í vetur.
Fræðslusetrið Starfsmennt er samstarfsvettvangur fjármála- og efnahagsráðuneytisins og flestra aðildarfélaga BSRB um starfstengt nám, starfsþróun og ráðgjöf. Námið er félagsmönnum að kostnaðarlausu en opið öðrum gegn gjaldi.