Ríkisstjórnin verður að bregðast við,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um stigmagnandi verðbólgu og spá sérfræðinga um frekari stýrivaxtahækkanir Seðlabankans.
Sonja Ýr gerir þetta að umtalsefni í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
„Kvíða er farið að gæta á mörgum heimilum landsins vegna verðs á nauðsynjavörum og síhækkandi húsnæðiskostnaðar. Ríkisstjórnin verður að bregðast við. Og hún verður að gera það núna með aðgerðum sem koma til framkvæmda strax, ekki á næstu árum. Það þarf sértækar tekjuöflunaraðgerðir gegn verðbólgu, aukið aðhald á markaði og stuðningsaðgerðir við heimili í vanda,“ segir hún.
Sonja Ýr segir að beðið hafi verið eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar mánuðum saman. En í stað þess að bregðast við hafi ráðherrar eftirlátið Seðlabankanum hagstjórnina sem hefur einungis takmörkuð og almenn tæki til. Þetta hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir almenning.
„Þrátt fyrir þessa alvarlegu stöðu í efnahagsmálum er mikill hagnaður fyrirtækja og arðgreiðslur virðast síður en svo vera að dragast saman. BSRB hefur bent á að ríkisstjórnin þurfi að bæta stöðu ríkisfjármála með tekjuöflun hjá þeim sem sannarlega hafa svigrúm til að leggja meira af mörkum til samneyslunnar. Þar má nefna hátekjuskatt, stóreignaskatt, bankaskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts og hærri hlutdeild almennings í tekjum fyrir afnot á sameiginlegum auðlindum. Verðbólga er nú í tveggja stafa tölu og því þarf að grípa til ráðstafana strax en ekki bíða næsta fjárlagaárs.“
Sonja bendir á að fyrirtækin ákveði verðlag og hér ríki fákeppni á mörkuðum með nauðsynjavörur. Sú staða muni ekki breytast af sjálfu sér.
„Stjórnvöld geta og eiga að tryggja virka samkeppni og neytendavernd. Hjá stórfyrirtækjunum er svigrúm til þess að minnka álagningu, sem eykst þó með degi hverjum og veldur aukinni verðbólgu,“ segir hún.
Grein Sonju má lesa í heild sinni hér.