Sköpum meðvind fyrir konur

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Hér á landi eru nær allar konur útivinnandi en um þriðjungur þeirra er í hlutastarfi því þær bera enn meginábyrgðina á börnum, öldruðum eða veikum ættingjum og heimilinu. Konur eru enn lengur frá vinnumarkaði en karlar eftir að hafa eignast börn því að þrátt fyrir að fæðingarorlof sé orðið 12 mánuðir er ekki búið að tryggja jafna skiptingu milli foreldra né tekur leikskóli við börnunum strax að því loknu. Að meðaltali, yfir landið allt, eru þetta 7,5 mánuður sem þarf að brúa, sem kemur verst niður á þeim sem eiga ekki gott stuðningsnet eins og konur af erlendum uppruna.

Öll þessi ólaunaða vinna kvenna skerðir þær tekjur sem hljótast af launuðum störfum þeirra út ævina – í launaþróun, starfstækifærum, starfsþróun og svo lífeyrisréttindum. Það hefur neikvæð áhrif á möguleika kvenna til fjárhagslegs sjálfstæðis sem er grundvöllur frelsis þeirra.

Allar konur berjast við mótvind, en hjá sumum er hann sterkari en öðrum. Þetta er mótvindur sem skellur á konum sem ekki fæddust hér á landi, á konum sem eru ekki hvítar á hörund, eru ekki ófatlaðar, ekki gagnkynhneigðar, ekki sís konur, eru ekki í sterkri félagslegri stöðu eða fjárhagslegri. Okkur ber skylda til að tala máli allra kvenna og gera kröfum þeirra jafnhátt undir höfði og þannig skapa meðvind fyrir allar konur.

Metum konur af erlendum uppruna að verðleikum

BSRB, ASÍ, BHM, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kvenréttindafélag Íslands, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Kennarasamband Íslands verða í dag með árlegan fund sinn í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna þar sem verður lögð sérstök áhersla á konur af erlendum uppruna. Staða þeirra á vinnumarkaði er jafnan enn viðkvæmari en kvenna sem fæðast hér á landi þar sem þær eru útsettari fyrir tvöfaldri mismunun; vegna þess að þær eru konur og vegna þess að þær eru af erlendum uppruna.

Í skýrslunni „Konur af erlendum uppruna - Hvar kreppir að?“ kemur fram að konur af erlendum uppruna vinna iðulega í einhæfum láglaunastörfin, oft langan vinnudag og oft að mestu með öðru fólki af erlendum uppruna, gjarnan í vaktavinnu, eru oft ofmenntaðar í þau störf sem þær sinna og eiga oft erfitt með að fá framgang í starfi. Atvinnuleysi er einnig hærra meðal kvenna af erlendum uppruna en innlendra kvenna og hærra hlutfall kvenna af erlendum uppruna leitar sér aðstoðar vegna ofbeldis.

Samkvæmt könnun Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins frá því í janúar 2022 áttu 45,5% kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði erfitt með að ná endum saman á móti 29,5% innfæddra kvenna. Fjárhagsstaða einstæðra foreldra er svo verst allra á vinnumarkaði en um það bil sex af hverjum tíu eiga erfitt með að ná endum saman. Ennþá eru mæður í meirihluta einstæðra foreldra og þær hafa síður efni á að kaupa nauðsynlegan fatnað fyrir börnin sín, kaupa heilsusamlegan mat eða greiða fyrir íþróttir, tómstundir eða annað sem því fylgir s.s. íþróttafatnað eða skó. Í ljósi aukinnar verðbólgu hefur staðan líklega versnað enn frekar frá því könnunin var lögð fram.

Þessar niðurstöður sýna að hvorki vinnumarkaðurinn né samfélagsgerðin okkar gerir ráð fyrir því að konur á vinnumarkaði geti framfært sér og sínum. Það setur sumar konur í þá stöðu að þurfa að vera upp á aðra komnar, líkt og maka, til að tryggja lífsviðurværi sitt og barna sinna. Þrátt fyrir árhundrað langa baráttu fyrir kvenfrelsi og jafnrétti erum við ekki komin lengra frá hugmyndum um fyrirvinnuhlutverk karla og afleiðingin er sú að það búa ekki allar konur á Íslandi við fjárhagslegt sjálfstæði.

Ósýnileg vinna

Konur eru frekar í þeim störfum sem eru hvað lægst launuð í okkar samfélagi og þar eru konur af erlendum uppruna fjölmennar. Kynskiptur vinnumarkaður er meginástæðan fyrir launamun kynjanna hér á landi sem og annars staðar í heiminum, þ.e. að konur skipa meirihluta fjölda starfsstétta sem starfa við umönnun, hjúkrun, félagsþjónustu og í menntakerfinu.

Það sem einkennir kvennastéttirnar er að þær vinna gjarnan störf sem fela í sér náin persónuleg samskipti og tilfinningalegt álag þar sem hlaupið er hratt og sköpuð óáþreifanleg verðmæti.

Og af því konur sinna ósýnilegri vinnu, hvort sem er í launuðum störfum eða ólaunuðum þá upplifa þær oftar en ekki að það séu of fáar hendur til að sinna eldra fólki, fötluðu fólki, veiku fólki og börnum. Svo koma þær heim og annast börnin, ættingjana og heimilið. Ofan á þetta allt saman bætist svo líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi heima og í vinnunni sem líkja má við faraldur því 40% kvenna hafa orðið fyrir því á lífsleiðinni.

Það blasir við að slíkur mótvindur getur leitt til veikinda, örmögnunar eða jafnvel kulnunar. Meirihluti þeirra sem leita aðstoðar hjá VIRK eru konur einmitt í þeim störfum sem krefjast náinna persónulegra samskipta. Það tekur sinn toll að gefa sífellt af sér persónulega og að því þarf að huga við skipulag vinnunnar, starfsaðstæðna og mönnunar. Ekki síst til að vinna gegn þeirri staðreynd að það eru helst konur sem eru komnar á fimmtudagsaldur sem missa starfsgetu og þurfa að lifa af á örorkulífeyri.

Konur bera uppi velferðina

Við getum ekki sætt okkur við samfélag sem byggir velferð sína upp á bökum kvenna þannig að þau bresti. Við verðum að tryggja sterkt velferðarkerfi sem greiðir laun í samræmi við þau verðmæti sem störfin skapa, tryggir öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, axlar ábyrgð á umönnun aldraðra, barna og veikra og jafnar möguleika fólks í gegnum stuðningskerfi stjórnvalda.

Fjárfesting í almannaþjónustunni sem grípur okkur öll í mótvindi lífsins og tryggir konum fjárhagslegt sjálfstæði er besta fjárfestingin fyrir friði og öryggi. Aðgerðir sem stuðla að heilbrigði fólks og grípur það þegar það veikist eru undirstaða hvers samfélags ásamt því að öll hafi tækifæri til að koma öruggu þaki yfir höfuðið. Þá þarf að byggja samfélag þar sem konur þurfa ekki að segja #metoo en það verður ekki gert nema við leggjumst öll á eitt og grípum til aðgerða sem útrýma vandanum.

Tryggjum fjárhagslegt sjálfstæði kvenna

Stærsta skrefið sem við getum tekið í átt að auknu jafnrétti kynjanna er þannig ótvírætt að tryggja konum örugga framfærslu og fjárhagslegt sjálfstæði. Þar þarf að horfa til atvinnuþátttöku, starfsaðstæðna, launa og lífeyrisgreiðslna – en líka takast á við rótgróin viðhorf um ólíka stöðu og hlutverk kynjanna sem viðhalda megnu ójafnrétti. Það krefst að sjálfsögðu umfangsmikilla aðgerða af hálfu stjórnvalda en forystufólki í atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunni, í skólum, félagasamtökum og íþróttahreyfingunni ber einnig skylda til að halda mikilvægi jafnréttis á lofti og sýni vilja í verki.

Kæru konur,

Til hamingju með daginn!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?