Réttinn til að ferðast um landið þarf að verja

Ágangur ferðamanna getur spillt viðkvæmum gróðri og mikilvægt að ganga vel um náttúruna.

Nú um hásumarið eru eflaust margir á ferð og flugi enda sumarið frábær tími til að ferðast um Ísland, kíkja í kaffi til vina og ættingja og skoða náttúruna. Í lögum um náttúruvernd er ferðamönnum tryggður rétturinn til að fara um landið en auðvitað verður að gæta þess að ganga vel um og spilla ekki náttúrunni.

Ef horft er til reynslu annarra þjóða sjáum við að þessi réttur til að fara um landið er ekki sjálfsagður og að um hann eigum við sem þjóð að standa vörð. Með það í huga þurfum við öll að axla ábyrgð á því að fara ekki illa með þennan rétt. Það gerum við með því að gæta þess að skemma ekki viðkvæma náttúru, skilja ekki eftir rusl og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Ábyrgir ferðamenn hafa alltaf í hafa þessa einföldu þumalputtareglu: „Tökum bara ljósmyndir, skiljum aðeins fótsporin eftir og drepum ekkert annað en tímann.“

Erlendir ferðamenn eru algengir hvar sem farið er þessa dagana og það er sjálfsagt að minna okkar erlendu gesti á þessar einföldu reglur. Flestir ganga vel um en það þarf ekki marga svarta sauði til að skemma fyrir öllum hinum. Þá skiptir einnig máli að byggja upp aðstöðu sem dregur úr álaginu sem mikill fjöldi ferðamanna getur haft á náttúruna. Eðlilegt er að stjórnvöld fjármagni uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferðamenn að einhverju leyti á kostnað þeirra erlendu ferðamanna sem sækja landið heim.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?