Bestu leiðirnar til að bregðast við því að fæðingartíðni hér á landi er í sögulegu lágmarki er að lengja fæðingarorlofið og hækka þak á greiðslur í fæðingarorlofi, auk þess að tryggja börnum dagvistun strax að orlofi loknu. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um fæðingartíðni.
Fæðingartíðni á Íslandi hefur í sögulegu samhengi almennt verið há miðað við önnur Evrópulönd, eða um tvö börn á hverja konu. Nú horfir til verri vegar og er fæðingartíðnin í sögulegu lágmarki, á milli 1,7 og 1,8 börn á hverja konu, eins og kemur fram í úttekt Fréttablaðsins.
Í blaðinu er rætt við Ólöfu Garðarsdóttur, prófessor í félagssögu á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún segir að ef litið sé á fæðingartíðni með tilliti til þeirra lífsgæða sem við lifum við og framleiðni í samfélaginu þá sé mögulega tilefni til að hafa áhyggjur af lækkandi fæðingartíðni.
Þær leiðir sem hún bendir á til að hækka fæðingartíðnina eru einkum þær að lengja fæðingarorlofið og hækka þakið á greiðslur til foreldra. Þá segir hún að brúa verði bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Þetta rímar vel við áherslur BSRB og þá stefnu sem bandalagið hefur mótað á síðustu þingum. BSRB hefur beitt sér fyrir lengingu fæðingarorlofsins og því að þak á greiðslur verði hækkað. Þá hefur bandalagið einnig lagt mikla áherslu á að fyrstu 300 þúsund krónurnar af launum fólks verði ekki skertar í fæðingarorlofi til að auðvelda tekjulægra fólki að taka fæðingarorlof.
BSRB hefur einnig beitt sér fyrir því að bilinu milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða, svonefndu umönnunarbili, verði eytt. Í skýrslu um dagvistunarúrræði sem bandalagið sendi frá sér í maí 2017 er farið yfir stöðuna hjá sveitarfélögunum og hvatt til þess að réttur barna til dagvistunar frá því fæðingarorlofi lýkur verði lögbundinn.
Stjórnvöld hafa nú ákveðið að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tólf í áföngum auk þess sem hámark á greiðslur hefur verið hækkað undanfarið. Í kjölfarið þarf að taka fleiri skref til að bæta fæðingarorlofskerfið og lögfesta rétt barna til dagvistunar að því loknu. Það skiptir ekki aðeins máli þegar litið er til fæðingartíðni heldur er það einnig mikilvægt skref í átt að jafnrétti á vinnumarkaði.