Opinberir starfsmenn sætta sig ekki við áframhaldandi skeytingarleysi viðsemjenda nú þegar tíu mánuðir eru liðnir frá því kjarasamningar losnuðu. Félagar í BSRB, Bandalagi háskólamanna (BHM) og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) munu fjölmenna á fund í Háskólabíói klukkan 17 í dag til að krefjast þess að ríki og sveitarfélög gangi tafarlaust til samninga við starfsfólk sitt.
Á sama tíma munu félagsmenn BSRB, BHM og Fíh koma saman á baráttufundum víða um land og fylgjast með streymi frá Háskólabíói.
„Við höfum nú verið í tíu mánuði án kjarasamnings og hefur þótt skorta verulega á samningsvilja viðsemjenda okkar. Samstaðan hefur verið sterkasta vopn opinberra starfsmanna í gegnum tíðina og það er kominn tími til að við sýnum viðsemjendum okkar það. Nú munum við fylgja eftir okkar kröfum með aðgerðum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Á baráttufundinum mun forystufólk opinberra starfsmanna kanna hug félagsmanna til þess að hefja þegar í stað undirbúning frekari aðgerða til að knýja viðsemjendur til þess að ganga til samninga.
Ræðumenn verða:
- Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
- Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands, fyrir hönd BHM.
- Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
- Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
- Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis.
Milli ávarpa munu Jónas Sig og og hljómsveit ásamt Reykjavíkurdætrum taka nokkur lög.
Fundir á landsbyggðinni
Búið er að skipuleggja fundi á landsbyggðinni þar sem tekið verður við streymi frá fundinum í Háskólabíói. Félagar í aðildarfélögum BSRB, BHM og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga velkomnir!
- Akureyri: Hof, Strandgötu 12
- Ísafjörður: Skrifstofa FOSVest, Aðalstræti 24, 3.hæð
- Grundarfjörður: Skrifstofa Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Borgarbraut 1a
- Borgarnes: Grunnskólinn í Borgarnesi
- Reykjanesbær: Skrifstofa Starfsmannafélags Suðurnesja, Krossmóar 4a
- Sauðárkrókur: Kaffistofa Skagafjarðarveitna
- Háskólinn á Hólum: Stofa 202
Nánari upplýsingar má finna á Facebook-viðburði fyrir fundinn.