Kristín Heba nýr framkvæmdastjóri Vörðu

Kristín Heba Gísladóttir er nýr framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins.

Kristín Heba Gísladóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Kristín Heba er með BA-gráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri og meistarapróf í auðlindafræði frá sama skóla.

Undanfarin ár hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar en þar sá hún um daglegan rekstur, samskipti við stjórnvöld og kjörna fulltrúa, stjórnun verkefna auk þess að vera talsmaður AkureyrarAkademíunnar út á við. Þá hefur Kristín Heba starfað sem stundakennari við Háskólann á Akureyri frá árinu 2012.

„Ég hlakka til að hefja störf, kynnast fólkinu í hreyfingunni og takast á við öll þau spennandi verkefni sem framundan eru hjá Vörðu með það að markmiði að bæta kjör og lífsgæði launafólks“ segir Kristín Heba um nýja starfið.

Alþýðusamband Íslands og BSRB stofnaðu Vörðu – rannsóknarstofnun í vinnumarkaðarins í október 2019 til að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála. Stofnuninni er ætlað að dýpka umræðuna um kaup og kjör og koma þannig með aukið fóður inn í baráttu launafólks fyrir bættri afkomu og betri lífsskilyrðum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?