Íbúðir Bjargs við Móaveg hálfu ári á undan áætlun

Íbúðir Bjargs við Móaveg í Grafarvogi eru nú óðum að fyllast. Mynd/ÍAV

Verktakafyrirtækið ÍAV afhenti síðustu íbúðir Bjargs íbúðafélags við Spöngina í Grafarvogi á föstudaginn, sex mánuðum á undan áætlun. Alls byggði fyrirtækið 155 íbúðir í sex húsum við Móaveg 2-12.

Forsendur þess hve vel verkefnið hefur gengið, rekur ÍAV til árangursríks samstarfs við Bjarg, hönnuði verkefnisins, fjölda undirverktaka og birgja, að því er fram kemur í tilkynningu frá Bjargi.

Öflugur hópur úr verkalýðshreyfingunni, auk borgarstjóra, tók fyrstu skóflustungurnar að íbúðunum við Móaveg þann 23. febrúar 2018 og fyrstu íbúðirnar voru afhentar 20. júní 2019. Þegar hafa 124 íbúðir verið afhentar í húsunum við Móaveg og um 280 íbúar fluttir inn.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af BSRB og ASÍ. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd.

Uppbygging Bjargs fer fram víðar en við Spöngina í Grafarvogi og reiknar félagið með að styttist í afhendingu íbúða við Hallgerðargötu og Silfratjörn í Reykjavík, við Guðmannshaga á Akureyri og í Þorlákshöfn. Félagið hefur þegar afhent samtals 194 íbúðir og hýsir um það bil 440 íbúa.

Nánari upplýsingar um íbúðakjarna og umsóknarferlið má finna á vef Bjargs. Þar má einnig finna reiknivél þar sem félagsmenn BSRB og ASÍ geta kannað hvort þeir séu innan þeirra tekju- og eignaviðmiða sem gilda um almenn íbúðafélög eins og Bjarg.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?