Aðeins rúmlega einn af hverjum 100 nemendum í grunnnámi við íslenska háskóla leggur stund á starfsmiðað nám. Í Finnlandi er nær annar hver nemandi á sama stigi í starfstengdu námi. Þetta kom fram í erindi Runólfs Ágústssonar frá Ráðgjöf og verkefnastjórnun á menntadegi BSRB, sem var haldinn í síðustu viku.
Í erindi sínu fjallaði Runólfur um fagháskólanám og möguleika félagsmanna BSRB til að afla sér frekari menntunar með því að sækja slíkt nám. Hann gagnrýndi þá miklu áherslu sem íslenskir háskólar leggja á akademískt nám og benti á að á sama tíma og fjöldi nemenda sem innritist í háskóla hafi tvöfaldast hafi nemendum í starfsnámi fækkað.
Fagháskólanám er skilgreint sem menntun og þjálfun sem ætlað er að afla fólki þekkingar, starfsvits, leikni og/eða færni sem krafist er í ákveðnum atvinnugreinum eða á vinnumarkaðinum almennt. Um er að ræða nám á háskólastigi sem hefur atvinnutengd lokamarkmið og byggir skipulag námsins á nánum tengslum við atvinnulífið.
Þrjú verkefni fyrir opinbera starfsmenn
Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúnings fagháskólanáms undanfarið og vann sérstakur verkefnishópur tillögur um námið á árinu 2016. Í kjölfarið er eitt verkefni komið af stað, diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun, og þrjú verkefni með aðkomu opinberra starfsmanna í vinnslu.
Þar er um að ræða fagháskólanám í öldrunarhjúkrun sem unnið er í samvinnu við Sjúkraliðafélag Íslands, nám í heilbrigðisgagnafræði sem unnið er í samstarfi með SFR og fagháskólanám á stjórnsýslusviði fyrir starfsfólk sem starfar í stjórnsýslunni, sem einnig er unnið í samvinnu við SFR.
Að loknum umræðum um fagháskólanám á menntadegi BSRB var fjallað um raunfærnimat, eins og fjallað var um í nýlegri frétt BSRB.
Margar tillögur frá umræðuhópum
Menntadegi BSRB lauk svo með umræðum í smærri hópum þar sem þátttakendur veltu fyrir sér mikilvægustu verkefnum BSRB og aðildarfélaga bandalagsins í menntamálum.
Margar áhugaverðar tillögur komu fram á fundinum. Margir nefndu mikilvægi þess að bandalagið hafi sérhæfðan starfsmann til að sinna menntamálum og bera ábyrgð á stefnumörkun gagnvart stjórnvöldum. Þá var kallað eftir því að stefnumörkun vegna raunfærnimats verði skýrari og lagt verði mat á heildarhugsunina í menntakerfinu í ljósi breyttra tíma.
Fundarmenn bentu einnig á að hvata vanti í kjarasamningum til að starfsmenn sjái sér hag í að afla sér viðbótarmenntunar. Það þurfi almennt að fara í mjög viðamikið nám til að fá óverulega kjarabót. Þá verði að tryggja starfsmönnum rétt á launuðu leyfi til að afla sér menntunar.
Stjórn BSRB mun fjalla um niðurstöður menntadagsins auk þess sem umræðan mun halda áfram á þingi bandalagsins, sem haldið verður í haust.
Glærur fyrirlesara aðgengilegar
Hægt er að nálgast glærur allra fyrirlesara á menntadegi BSRB hér að neðan:
- Runólfur Ágústsson frá Ráðgjöf og verkefnastjórnun
- Birna Ólafsdóttir frá Sjúkraliðafélagi Íslands
- Róbert H. Haraldsson prófessor við HÍ
- Þórarinn Eyfjörð SFR
- Haukur Harðarson frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins
- Sólborg Alda Pétursdóttir frá Starfsmennt
- Karl Rúnar Þórsson formaður mennta- og fræðslunefndar BSRB