Forsvarsmenn Bjargs íbúðafélags og Akranesbæjar skrifuðu í gær undir viljayfirlýsingu um byggingu 33 íbúða við Asparskóga á Akranes. Lítið framboð hefur verið á leiguíbúðum í bænum að sögn bæjarstjóra.
Með viljayfirlýsingunni veitir Akraneskaupstaður Bjargi íbúðafélagi vilyrði um úthlutun á lóðum að Asparskógum 12, 14 og 16.
„Með undirritun yfirlýsingarinnar er stór skref stigið í að mæta íbúum Akraness með fjölgun leiguíbúða en lítið framboð hefur verið af slíkum síðastliðin ár. Ég er fullur tilhlökkunar yfir verkefninu og hef mikla trú á því. Við erum hér að mæta fjölskyldum hér í bæ með nýjum leiguíbúðum á leiguverði sem tekur mið af tekjum heimilisins”, segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi í frétt á vef Bjargs íbúðafélags.
Þar lýsir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, yfir ánægju sinni með að þetta metnaðarfulla verkefni á Akranesi sé nú að fara af stað. Hann hrósaði bæjaryfirvöldum á Akranesi og sagði ferlið hafa gengið hratt fyrir sig.
Framkvæmdir eru þegar hafnar á lóð Bjargs í Spönginni í Grafarvogi, en fyrsta skóflustungan að fyrsta íbúðakjarna Bjargs var tekin 23. febrúar síðastliðinn. Félagið áformar að á þessu ári komist um 450 íbúðir í byggingu hjá félaginu og 1.000 til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum.
Að danskri fyrirmynd
Bjarg íbúðafélag var stofnað af BSRB og ASÍ og er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Félagið er húsnæðissjálfseignastofnun sem rekin er án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða leiguheimili að danskri fyrirmynd sem standa munu til boða þeim félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, skilgreindum í lögum um almennar íbúðir.