Friðarsinnar fleyta kertum á Reykjavíkurtjörn

Kertum verður fleytt á Reykjavíkurtjörn, á Akureyri og Ísafirði á fimmtudagskvöldið.

Friðarsinnar munu safnast saman við suðvesturenda Tjarnarinnar í Reykjavík fimmtudagskvöldið 9. ágúst klukkan 22:30 til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasaki árið 1945. Kertum verður einnig fleytt á Akureyri og Ísafirði og mögulega víðar.

Kertum hefur verið fleytt á Reykjavíkurtjörn frá árinu 1985, en með því er einnig minnt á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna. Þessi vopn eru einhver mesta ógnin við tilveru mannkynsins og óhemju fjármunum er varið í áframhaldandi þróun þeirra, eins og segir í tilkynningu frá friðarsinnum. Þar eru stjórnvöld jafnframt hvött til að undirrita og staðfesta sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum sem gerður hefur verið á vettvangi Sameinuðu þjónanna.

Safnast verður saman við suðvesturenda Tjarnarinnar, við Skothúsveg, klukkan 22:30 fimmtudagskvöldið 9. ágúst. Stutt dagskrá verður áður en kertafleytingin fer fram, en hana má finna á Facebook-viðburði kertafleytingarinnar. Flotkerti verða seld á staðnum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?