Reykjavíkurborg hefur sett upp sérstakan vef með upplýsingum um tilraunaverkefni BSRB og borgarinnar um styttingu vinnuvikunnar, sem verið hefur í gangi frá árinu 2015.
Á vefnum er hægt að lesa um þróun verkefnisins, sem byrjaði á tveimur vinnustöðum. Það nær nú til tæplega fjórðungs starfsmanna borgarinnar, um 2.000 starfsmanna borgarinnar á um 100 vinnustöðum.
Unnar hafa verið ýmsar rannsóknir á árangrinum af styttingu vinnuvikunnar. Þær hafa meðal annars leitt í ljós áhrif styttingarinnar á veikindi, starfsanda, streitu, afköst og fleira. Mikið af þeim rannsóknum má finna á þessum sérstaka vef um tilraunaverkefnið.
Þar má einnig finna upptökur af þremur opnum fundum sem haldnir hafa verið um málið, en fulltrúar BSRB tóku þátt í öllum þessum fundum. Þá eru einnig hlekkir á fréttir af styttingu vinnuvikunnar hjá borginni á vefnum.
Áhugafólk um styttingu vinnuvikunnar er hvatt til að skoða nýja vefinn og kynna sér rannsóknir og annað efni sem þar má finna.
BSRB hefur tekið fullan þátt í tilraunaverkefninu með Reykjavíkurborg en hefur einnig staðið að tilraunaverkefni með ríkinu sem hefur gengið afar vel. Hægt er að lesa um áherslur BSRB á styttingu vinnuvikunnar og tilraunaverkefnin tvö hér.