Bjarg íbúðafélag byggir upp á Suðurlandi

Viljayfirlýsing um lóðarafhendingu á Selfossi var handsöluð af fulltrúum Bjargs og forsvarsmönnum Árborgar. Mynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Forsvarsmenn Bjargs íbúðafélags, sem stofnað var af BSRB og ASÍ, hafa undirritað viljayfirlýsingar um uppbyggingu á leiguíbúðum í Sveitarfélaginu Árborg og Sveitarfélaginu Ölfusi.

Áformað er að reisa 44 íbúðir í Björkustykki á Selfossi. Deiliskipulagstillaga fyrir nýtt hverfi í landi Björkur hefur verið lögð fyrir bæjarstjórn og verður í kjölfarið auglýst. Þá mun Sveitarfélagið Ölfus afhenda Bjargi lóðir fyrir 11 leiguíbúðir við Sambyggð í Þorlákshöfn og er stefnt að því að uppbygging geti hafist sem fyrst.

„Þetta er afar jákvætt skref enda hefur verið ríkur vilji til þess hjá Bjargi að byggja líka upp leiguíbúðir á landsbyggðinni,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB og stjórnarmaður í Bjargi íbúðafélagi.

„Við sjáum að það er þörf fyrir íbúðir af þessu tagi víða og mikilvægt að hraða uppbyggingu eins og mögulegt er svo hægt verði að flytja inn sem fyrst,“ segir Elín.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af BSRB og Alþýðusambandi Íslands árið 2016. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félagsmönnum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Uppbygging er þegar hafin á tveimur stöðum í Reykjavík og verður fleiri stöðum bætt við von bráðar. Þá hefur verið samið um að Bjarg reisi byggingar á Akranesi og á Akureyri.

Opið fyrir skráningu hjá Bjargi

Opnað hefur verið fyrir umsóknir hjá á vef Bjargs íbúðafélags. Umsóknir sem berast fyrir lok júlí fara í pott og verður dregið um röð þeirra á lista. Umsóknir sem berast eftir það fara á listann í þeirri röð sem þær berast.

Allar frekari upplýsingar má finna á vef Bjargs, þar sem hægt er að sækja um íbúð.

Undirritun í Þorlákshöfn

Gengið var frá samkomulagi í Þorlákshöfn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?